10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

72. mál, hlutafélagsbanki

Svo segir háttv. sami þm., að eg ráðist á stofnun, sem ekki geti borið hönd fyrir höfuð sér. Hér er þó einn bankastjórinn viðstaddur, og hann ekki sá lakasti. (Hannes Hafstein:

Eg er ekki bankastjóri). Vér skulum sjá í mánaðarlokin, hvort hann verður ekki bankastjóri þá.

Svo kemur þetta, þegar rökin vantar, að slá fram hinu og þessu, svo sem að eg sé á móti járnbraut og hafi verið á móti síma o. s. frv., sem ekkert kemur málinu við.

Það versta við ræðu hv. þingmanns, var það, að hann rangfærði margt af því sem eg sagði. Eg sagði ekkert um það, að aktiurnar hefði ekki verið seldar í fyrstu. Sjálfsagt hafa dönsku bankarnir keypt þær í bili, en svo reynt að losa sig við þær á þann hátt, að bjóða þær hér til láns og láta Íslandsbanka lána megnið af andvirðinu út á þær.

Og meðal annara vantaði alt ábyggilegt eftirlit með þeirri verzlun. Það er vitaskuld, að bankarnir, sem tóku að sér að selja aktíurnar, hlutu annaðhvort að selja þær eða liggja með þær sjálfir. En sagan er ekki öll sögð með því.

Háttv. l. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að það hefði farist fyrir að birta reikningana hér á landi. Eg hefði vel getað skilið, að það hefði farist fyrir einn og einn mánuð, eins og stunduun hafði komið fyrir áður, en að það hafi óviljandi farist fyrir í hálft ár samfleytt, það get eg ekki skilið. Nei, það hlýtur að hafa verið gert í ákveðnum tilgangi. Háttv. sami þm. vísaði í »Börsen«, þar væri reikningarnir birtir. En hvað margir halda Börsen hér á landi, og að hvaða gagni kemur það hér að birta reikningana erlendis. Það var af hreinustu tilviljun, að eg rakst á þá í því blaði, af því að svo vill til, að Landsbankinn heldur Börsen, og sá eg þá þó ekki sjálfur, heldur benti annar maður mér á þá. Eg verð því að halda fast við það, að ennþá sé ekki kominn fram tilgangurinn, hvers vegna reikningar bankans hafa ekki verið birtir hér í hálft ár, einmitt í ár, þegar þing er haldið.

Háttv. þm. (H. H.) rangfærði orð mín, þar sem hann sagði, að eg hefði sagt, að bankinn væri að benda á, að hann væri ólimiteraður. Eg sagði, að bankinn gæti ekki um það, þegar hann auglýsti, að hann væri limiteraður, og ekki sézt það á sparisjóðsbókum hans, sem sem reyndar eru kallaðar »innlánsbækur«. — Bankinn tekur á móti 1 kr. gegn 4% vöxtum, alveg eins og sparisjóður Landsbankans. Hvað þetta »innlán« sé hefi eg áður lýst og hverja skoðun menn í Danmörku hafi um það. Það sannar ekkert þótt öðruvísi orðaðar reglur gildi um sparisjóðsfé Íslandsbanka en um sparisjóð Landsbankans. Sparisjóðir hafa mismunandi orðaðar reglur og eru sparisjóðir fyrir því.

Það er nóg, að Íslandsbanki rekur almenna sparisjóðs starfsemi.

Háttv. sami þingm. sagði, að sparisjóðsbækur Íslandsbanka væri ekki veðhæfar, en samt eru þær veðsettar. Það er ekkert merki á þeim, eins og annarsstaðar gerist, sem segir, að þær sé veðhæfar.

Loks segir hann, að það sé ekkert, sem banni Íslandsbanka að hafa sparisjóð. Eg hefi áður bent á það, að í lögunum um stofnun bankans stendur ekkert um það, hvað hann má ekki gera, heldur að eina hvað hann má gera. Og þar stendur ekkert um að hann megi reka sparisjóðsviðskifti. Og samkvæmt öllum undirbúningi þeirra laga, þá er það auðsætt, að hann má ekki hafa sparisjóð. Reglugerð bankans hefir ekkert að segja í því efni, reglugerð breytir ekki lögum, svo lögfróður vonast eg til að háttv. þm. sé.

Svo spyr háttv. þingmaður hvaða tryggingu Landsbankinn hafi að bjóða sparisjóðsinneigendum sínum og gefur í skyn, að hún muni jafnvel ekki vera eins mikil og trygging Íslandsbanka. En þar til er því að svara, að Landsbankinn hefir 20% í verðbréfum og á auk þess 800.000 króna varasjóð og þar að auki er bankinn. eign landssjóðs sjálfa. Er það ekki næg trygging ?

Enn rangfærði hann orð mín um að bankinn hefði tvær hættur, sem sé af sparisjóðsrekstri sínum og seðlaútgáfurétti. Eg átti við það, að hættan væri tvenns konar.

Hann sagði og, að Íslandsbanki þyrfti ekki þennan aukna seðlaútgáfurétt sín vegna, heldur væri það af almennings þörf. En það er ekki rétt, hér er ekki um almennings þörf að ræða, heldur er það bankans eigin þörf. Það er að eins hinar víðu dyr, sem Íslandsbanki vill hafa, það er þörfin og ekkert annað. Út af því sem háttv. þingm. sagði, að ómögulegt væri að breyta til vegna þess, að ákveðið væri með lögum að seðlaútgáfuréttur væri svo og svo, þá vil eg spyrja: Hvað lengi verða þau lög í gildi? Því er auðsvarað. Þangað til þeim verður breytt, en þeim er ekki hægt að breyta nema með samþykki beggja aðila.

Að eg hafi viljað koma Íslandsbanka á, kemur ekkert þessu máli við. Það er satt, að eg greiddi atkvæði með því 1901, að bankinn væri stofnaður, en eg lét mig málið að öðru leyti litlu skifta, það var alt annar maður, sem var aðalforgöngumaður þess máls. Það er líka þessu máli alveg óviðkomandi, að eg hafi viljað komast að sem bankastjóri við Íslandsbanka, auk þess sem það er ekki satt. Þegar Björn heitinn Jónsson lá veikur í Kaupmannahöfn, þá skrifaði hann mér bréf og bað mig að koma þangað, því að stofnendur Íslandsbanka vildi tala við mig og að þeir vildi ef til vill gera mig að bankastjóra. Eg fór þá ferð, þótt nauðugur væri, af því að til stóð að koma þar að öðrum manni, kunningja mínum, sem hafði þess meiri þörf. Þetta er sannleikurinn í þessu máli.

Niðurstaða mín verður eins og áður sú, að til þess að komast hjá öllu þjarki milli þingsins og Íslandsbanka, og líka bezt fyrir hluthafa hana, væri bezt að landið keypti bankann. Með því móti myndi friður komast á.