08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

7. mál, girðingar

Flutningsm. (Einar Arnórsson):

Eg þarf ekki að vera margorður um þetta frumvarp. Við flutningsmennirnir höfum borið það fram til þess að ráða bót á galla á 8. gr. girðingarlaganna nr. 66 frá 22. nóv. 1913. En gallinn er sá, að ákvæði greinarinnar um það, hver bera eigi kostnaðinn við girðingar, þar sem lönd manna liggja saman, þykja ekki skýr. Þetta frumvarp leggur það til, að kostnaðinum verði jafnað niður á alla, landeigendur og ábúendur að tiltölu við notagildi girðingarinnar fyrir hvern um sig, ef ekki næst samkomulag um kostnaðinn. Þetta er aðalatriðið.

Auk þess er stungið upp á viðaukaákvæði aftan við 9. gr., þar sem leyft er að heimta yfirúttekt eftir sömu reglum sem og segir í ábúðarlögunum. Eg vona, að frumv. þetta fái góðar undirtektir. Smágallar eru þó á því, en þá má altaf laga við meðferð málsins á þinginu. Eg vænti þess að frv. verði vísað til 2. umr.