18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

7. mál, girðingar

Einar Arnórsson:

Mér þótti fullskýrt ákvæðið í 1. málsgr. 1. gr. frv., en háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) hefir að því leyti verið á sama máli og háttv. þm S.-Þing. (P. J.), að báðum hefir þótt þurfa að kveða skýrara á um þetta.

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem eg skil ekki fullkomlega. Hann var að tala um, að það væri ekki rétt að vera að leggja fjárkvöð á hið opinbera. Eg get ekki skilið, að um þessi lög geti að því leyti gilt nokkuð sérstakt fremur en um ýms önnur lög. Hvers vegna skyldi ekki mega leggja slíka fjárkvöð með þeim á »hið opinbera«, eins og svo fjölmörgum öðrum lögum hefir verið gert? Og hvers vegna ætti maður ekki að hafa sama rétt til þess að girða land sitt, þótt t. d. land þjóðjarðar lægi að landi hans?

Svo var það þessi gamla saga um það, að ekki megi hagga við lögum, ef þau eru ný. Það kveður oft við þann tón hér í deildinni, sérstaklega þó frá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). En er þá betra að láta óhæf eða ónýt lög standa árum saman?

Svo vildi eg minnast á eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ak. (M. Kr.), sem mér gleymdist að geta um áðan, viðvíkjandi úttektinni. Eins og allir vita, er ekkert ákvæði um yfirúttekt í girðingalögunum. Það hefir ef til vill gleymst á síðasta þingi. Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) taldi ónauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði í lögunum, en þegar vér höfum Slík ákvæði í öðrum lögum, svo sem í lögum um bygging, ábúð og úttekt jarða og mörgum fleiri, en ekkert er um það sagt í þessum lögum, þá má ef til vill skilja það svo, að hér beri að álykta e contrario: það hafi verið tilætlun löggjafans, að hér gæti yfirúttekt ekki farið fram. Eg segi ekki, að þetta sé réttur skilningur, en það gæti legið nærri að taka það svo.