08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson) :

Frumvarp þetta er hér flutt eftir áskorun frá síðasta aðalfundi sýslunefndarinnar í Árnessýslu.

Eins og menn sjá, er breytingin frá bjargráðasjóðslögunum ekki stór, en þó er hún all-þýðingarmikil. Breytingin er í því fólgin, að með frv. er ætlast til þess, að framlag hreppanna verði séreign hvers hrepps, í stað þess að nú er þetta séreign sýslnanna. Þessa breyting álíta menn til bóta, og eg hefi komist að raun um það, að það eru fleiri en Árnesingar, sem óska svipaðra breytinga. Háttv. þm. Borgf. (Hj. Sn.) hefir sagt mér, að samskonar ósk hafi komið fram á fundum í kjördæmi hana.

Ástæðan fyrir þessari ósk er sú, eftir því sem mér skilst, að eftir því sem lögunum er nú fyrir komið, óttast menn óánægju í hinum einstöku hreppum og misrétti í skiftingu fjárins. Hætt þykir við, að litlir hreppar verði afskiftir. Á það má líka benda, að í öðrum svipuðum lögum, t. d. lögunum um vátrygging sveitabæja og ellistyrktarlögunum, er tillagið einmitt séreign hreppanna, svo að þessu leyti er breytingin í samræmi við þau lög.

Eg hygg að þessi tillaga sé vinsæl, og vænti henni því góðra undirtekta. Eg býst við því, að sumir kunni að segja, að of snemt sé að breyta lögunum, áður en vitneskja sé fengin um það, hvernig þau gefast. En eg álít einmitt nauðsynlegt að þessi breyting sé gerð á lögunum, áður en farið er að nota þau.

Eg álít ekki nauðsynlegt að skipa nefnd í málið. Vænti eg að frv. verði vel tekið og því vísað til 2. umr.