08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Pétur Jónsson :

Eg stend ekki upp í því skyni að mæla á móti frv. við þetta tækifæri. Eg vil að eins leyfa mér að benda á, hve það er leiðinlegt að taka lög, sem samþykt eru á þingi, og óska þegar breytinga á þeim á næsta þingi, og svo er því farið um þetta frv. og fleiri frv., sem nú liggja fyrir hv. deild. Þannig hefir stöðugt til gengið hin síðari þing. Það getur verið, að sum lög frá þinginu sé gölluð, en eg skil ekki, að þau sé gallameiri en sumar endurbætur og viðaukar, sem komið er með við þau. Eg held, að betra sé að safna saman því, sem menn finna athugavert við tiltekin lög um nokkurra ára bil, athuga og reyna lögin meira til hlítar, heldur en að rjúka til og breyta einu og einu atriði í senn, laga smágalla, jafnvel áður en menn eru búnir að átta sig á, hvernig bezt er að laga þá. Eg get vel hugsað mér, að sömu mennirnir, sem nú flytja þessi breytinga- og viðaukafrumvörp, komi enn á næsta þingi með nýjar breytingar á sömu lögum, máske sömu breytingunum. Gott dæmi þessarar breytingarsýki er girðingalögin frá 1901. Við þau hafa menn altaf verið að bjástra á öllum þingum síðan þau vóru sett, og enn liggur fyrir frv. til breytinga á þeim. Mér finst þetta vera að spilla tíma þingsins og skerða sóma þess. Ekkert liggur á að breyta þessum lögum. Látum menn átta sig á þeim í 5–6 ár. (Guðm. Eggerz: Það er bezt að afnema lögin). Það má vel vera, að sumir vilji afnema lögin, og sjá þá allir, að gagnslaust er að vera að bjástra við þau.

Eg vil að þessi lög, sem önnur, sé bætt eftir því, sem reynslan kennir. Eg vil ekki styðja að því, að þetta frumv. gangi lengra, en þótt svo fari, að nefnd verði í það kosin, óska eg helzt, að þar verði það svæft.