08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Einar Arnórsson :

Eg get ekki látið hjá líða að gjöra stutta athugasemd út af ummælum háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). Hann taldi leitt að breyta nýjum lögum. Ekki get eg verið honum samdóma um það. En hitt má með réttu telja leitt, að lögin skuli vera svo úr garði ger, að jafnharðan þurfi að breyta þeim. Betur færi á því, að þingið vandaði meira lagasmíðina, svo að ekki þyrfti að breyta lögum fyrr en eftir langan tíma. Ef reynslan sýnir, að tiltekin lög eru óheppileg, þá er sjálfsagt að breyta þeim. Löggjafinn getur ekki séð fyrir öll hugsanleg tilfelli, sízt í nýmælum, og er því eðlilegt og sjálfsagt að þingið ráði bót á lögum, eftir því sem annmarkar þeirra koma í ljós. Girðingalögin, sem hv. þm. S.-Þing. (P. J.) nefndi, eru einmitt gott dæmi slíkrar lagasmíðar.

Eg tek undir það með háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), að álits þjóðarinnar hefir ekki verið leitað um þetta mál.

Það var samþykt á síðasta þingi, án þess að landsfólkið væri um það heyrt að nokkuru.

Hitt getur menn greint á um, hvort tillag sýslna og kaupstaða skuli vera séreign þeirra eða hvort það skuli ekki vera sameign alls landsins. En fyrst svo er ákveðið, að tillögin skuli vera séreign sýslnanna, má alveg eins ganga svo langt að tillögin verði séreign hinna einstöku hreppa. Það er auðsætt, að sýslunefnd mundi að vísu reyna að úthluta fénu eftir þörfum hreppanna. En sú úthlutun mundi verða óvinsæl og ger verða af handahófi, því að sýslunefndarmaður hvers hrepps mundi toga sinn skækil. Ef tillögin þar í móti yrði séreign hreppanna, þá mundi að sjálfsögðu hreppsnefnd hvers hrepps sjá um úthlutunina, og væri þá síður misrétti eða óánægju að óttast, vegna þess, að hreppsnefndarmönnum er kunnugast um það, hvar í hrepnum þörfin er mest.

Eg hygg því, að tillaga okkar komi lögunum í betra horf.