08.07.1914
Neðri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Pétur Jónsson :

Það sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, kom ekkert í bága við mín orð. Eg mæli ekki á móti því, að stórgallar sé lagfærðir á lögum, en hitt tel eg rangt, að breyta lögum, nema brýn nauðsyn sé til þess.

Málinu víkur svo við, að Árnesingar, og fleiri ef til vill, álíta bezt farið, að tillögin í bjargráðasjóð sé eign sveitarfélaganna, en ekki sýslufélaga. Á síðasta þingi var hitt álitið heppilegra, að tillögin væri séreign sýslnanna, og eg fyrir mitt leyti álít, að sjóðurinn væri sannarlegri bjargráðasjóður með þeim hætti að ætla honum rúmt verksvið, alveg eins og á sér stað um vátryggingarsjóði. Þetta mun hafa vakað fyrir þinginu í fyrra. Nú eru hér tvær skoðanir uppi hvor annarri andstæð. Eg álít rétt, að fleiri eða sem flestir láti uppi skoðun sína um málið; fyrr er fljótfærni að breyta lögunum. Enn er á það að líta, að nú er aukaþing, og virðist því ástæða til að láta málið bíða næsta reglulegs alþingis, fyrst engin hætta er á ferðum hvort sem er. Verði það ofaná að breyta héraðaeignum bjargráðasjóðsins í sveitaeignir, er ofurlétt að skifta sjóðnum þó nokkur ár sé liðin frá stofnun hans.