20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Pétur Jónsson:

Mér er ekkert kappsmál á, hvort ofan á verður um þetta frumvarp. Eg er ekki beinlínis á móti því, að þessi breyting verði gerð á sínum tíma, en álít hana óþarfa, fyrr en komið er í ljós, hvort það sé almenningavilji að fá þessa breyting á lögunum, og þá ef til vill einhverjar aðrar, sem fram kunna að koma á næsta þingi. Þetta vakti fyrir okkur, minni hluta nefndarinnar, og vildum við því fresta breytingum á lögunum til næsta þinga. Hina vegar þykir oss æskilegt, að heyra raddir almennings um þessa breytingu og jafnvel um það, hverjar breytingar þætti nauðsynlegar.

Í nefndinni kom fram tillaga um, að afnema lögin alveg og önnur varatillaga um að breyta þeim í heimildarlög. Nefndin félst ekki á þær tillögur. En af því má ráða, að ærið mismunandi skoðanir eru manna á milli um þessi lög. Þess vegna gæti einmitt verið ástæða til að leita álits almenning um málið. En ef nú er samþykt þessi breyting á lögunum, hverfur burt meginástæðan til að bera málið undir þjóðina. Því hefir oss dottið í hug að leggja til, að málið verði afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, sem eg með leyfi hæstv. forseta skal lesa upp :

»Í því trausti, að bjargráðastjórnin leiti fyrir næsta þing eftir skoðun allra sveitarstjórna á landinu á fyrirliggjandi frumvarpi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.