20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

13. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Jón Jónsson:

Það sem felst í þessu frumvarpi er ekki annað en sú breyting á Bjargráðasjóðslögunum frá því í fyrra, að tillög hreppanna til sjóðsins verði séreign þeirra. Ýmsir halda því fram, að þetta sé á móti anda laganna, en hann sé sá, að með þessum sjóði eigi að bjarga landinu úr voða þegar hallæri ber að höndum. Mér er óljóst, hvað átt er við í lögunum, þegar talað er um hallæri Þar er sagt, að það sé »hallæri, ef sveitarfélög, eitt eða fleiri í sýslu, eða bæjarfélag, verða af náttúruvöldum svo illa stödd, að sýslufélagið eða bæjarfélagið megnar ekki af eigin ramleik að forða mönnum og skepnum við harðrétti eða felli«. Ef hér hefði staðið skýrt, að því að eins væri um hallæri að ræða, ef það orsakaðist af eldgosum, öskufalli eða jarðskjálfta, þá hefði eg getað skilið, að þessi breyting kæmi í bága við anda laganna. En nú virðist mér, að lögin megi skilja svo, að til sjóðsins megi grípa, ef einhver hreppur verður fyrir heyþrotum í harðindum, svo að ekki er hægt að koma fram skepnum. Slík harðindi stafa af náttúruorsökum, svo að þau falla undir hallæri, eins og það orð er skýrt í lögunum. En það get eg ekki talið nauðsynlegt, að hafa almennan, sameiginlegan sjóð, sem menn geta treyst að hlaupi undir bagga í hvert skifti, sem heyskort ber að höndum, sem segja má um að stafi af náttúruvöldum, enda óþægilegt að grípa til slíks sjóðs alt af þegar svo stendur á. Þegar litið er á þetta, væri miklu nær, að hver einatakur hreppur hefði ráð á því sem hann leggur í sjóðinn. Féð er reyndar tekið úr vasa einstakra manna jafnt eftir sem áður, en það verður mönnum ekki eins tilfinnanlegt þegar það fer ekki út úr hreppnum og verður sérstök eign hans. Eg held þess vegna, að eins og lögin eru nú, þá sé þessi breyting sem frv. fer fram á, alveg sjálfsögð. Mér hefði getað skilist, að hún væri óþörf og jafnvel ósanngjörn, ef lögunum væri breytt þannig, að ekki mætti taka úr sjóðnum nema þegar afskaplegar hörmungar dynja yfir landið. Eins og lögin eru nú, má teygja þau á ýmsa vegu og grípa til sjóðsins undir mörgum öðrum kringumstæðum og jafnvel þó að mjög lítil ástæða sé til þess.

Það er mín skoðun, að þingið eigi ekki að haga sér þannig í löggjöfinni, eins og landsmönnum sé ekki treystandi til neina og að löggjafarvaldið verði að hafa vit fyrir þeim á öllum sviðum. Það miðar einungis til þess, að ala upp ómagahugsunarhátt í landinu, og á því er sízt þörf.

Það, sem mest ríður á er það, að hver einstakur maður reyni að sjá sér sem bezt farborða og leggi heilann í bleyti til þess að sjá, hvernig það má bezt verða. Allur þessi barlómur um vandræðin, sem landinu sé búin af hallærum, er að mestu út í bláinn. Það má reyndar segja, að ekki sé langt síðan í vor, að harðindin vóru. En þau vóru nú ekki almenn sem betur fór, og það er trú mín, að ef einstaklingarnir læra betur að sjá sér farborða og eflast að fyrirhyggjusemi og ráðdeild, þá sé það betri trygging gegn harðindahættum en nokkur sjóður.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) beindi því til mín, að mér skildist, að eg væri ekki fús á að fórna mér fyrir aðra. Og hann sló því fram um leið, að þeir, sem væri ófúsastir til að hjálpa öðrum, gerði mestar kröfur til þess, að þeim sjálfum væri hjálpað. Eg hygg, að þetta sé ekki rétt. Eg held einmitt þvert á móti, að þeir sem eru ófúsir til að leggja fram peninga til þess að styðja þá menn, sem gæti ef til vill staðið óstuddir, ef þeir nenti að leggja nokkuð á sig, geri að jafnaði ekki miklar kröfur til hjálpar annarra, og vilja jafnvel heldur deyja en að þiggja hana. Og þennan hugsunarhátt álít eg mikils virði og þess verðan, að fremur ætti að gera eitthvað til þess að efla hann, heldur en að draga úr honum. En löggjafarvaldið hefir ekki litið þannig á þetta mál. Það hefir miklu fremur gert sitt til, að ala upp ómagahugsunarháttinn og magna hann með þjóðinni. Það hefir tekið flest ráðin í sínar hendur, sett lög um, hvernig einstaklingarnir eiga að haga sér á flestum sviðum, tekið af þeim fjárráðin á ýmsan hátt og jafnvel hugsunarráðin að nokkru leyti. Eg gæti bent á nokkur lög máli mínu til stuðninga, og þau ekki allfá. Eg held, að þingið gerði réttara í að athuga gang sinn betur í þessu efni hér eftir en hingað til.