03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

20. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Framsögumaður minni hlutans (Stefán Stefánsson):

Því er líkt farið um mig og háttv. framsögum. meiri hlutans (E. P.), að mig brestur kunnugleika á staðháttum héraða þeirra, er hér er um að ræða. En þótt eg hafi ekki getað orðið samferða háttv. samnefndarmönnum mínum, þá er það engan veginn af því, að eg geti ekki unt þessum héruðum aukinnar læknishjálpar, því það má raunar segja., að allur lands lýður eigi kröfu til þess, að standa sem allra jafnast að vígi til að ná í lækni.

Háttv. framsögum. meiri hl. (E. P.) mintist á aðalástæðu þá, er eg sem minni hluti bar fram í nefndinni, sem sé þá, að nú standa 6 læknishéruð óveitt og það sjöunda mun bætast við töluna með haustinu. Af þessu má sjá, hvað tilgangslaust er að bæta nýjum héruðum við eins og nú stendur og jafnvel óréttlátt gagnvart þeim héruðum, sem enn vantar lækni í, og löggjafarvaldið þegar hefir ákveðið, að þarfnist mest læknis.

Einnig er vert að athuga það, hverri röskun þessi sundurbútun héraðanna kann að valda. Það er mjög líklegt, að nemendur kynoki sér við að stunda læknisfræði, af því að þeir geta búist við að fá svo lítið að starfa eða svo mannfá héruð, að ekki sé ráðlegt að gjöra slíkt að lífsstarfi sínu, enda líklegt, að lítil æfing skapi ekki mikinn læknir, þótt góða hæfileika hafi haft í byrjun. Þessi tvö atriði er vert að athuga í þessu sambandi, bæði að menn muni hika við að læra læknisfræði og í annan stað, að þeir læknar, sem lenda í mjög fámennum héruðum, geta naumast orðið eins góðir læknar og þeir, er hafa mikla og stöðuga æfingu.

Meinið er ekki það, að héruðin sé of fá, heldur hitt, að læknar eru of fáir, og þau mein græðast ekki með því að fjölga héruðum.

Mér dettur í hug, ef svo fer, að árlega verði fjölgað læknishéruðum, muni að því reka, að þá muni þeir ekki eingöngu þjóna sínum eigin héruðum heldur og öðrum héruðum með hálfum launum í viðbót við sín eigin laun, með öðrum orðum: að úr landssjóði verði að svara þriðjungi hærri launum, en annars mundi, til fjölda lækna, en læknishjálp máske engu meiri, eða auðfengnari. Þetta óttast eg að verði sú óeðlilega afleiðing af fjölgun héraðanna.

Það er síður en svo að eg neiti því, að erfitt sé í þessum héruðum, sérstaklega í Bolungarvík, að ná í lækni. Um erfiðleika í Hnappdælahéraði er mér ekki eins ljóst. En þar má þó ferðast á landi, sem talið er illfært úr Bolungarvík. Vegalengdir hygg eg ekki meiri þar en í sumum öðrum læknishéruðum.

Eg hefi ekki gert mér neitt far um að hafa áhrif á skoðanir þingmanna í þessu máli; en hinsvegar taldi eg mér skylt, að gjöra glögga grein fyrir afstöðu minni, bæði í nefndinni og málinu yfirleitt.