03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

20. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Guðmundur Hannesson:

Eg tek ekki til máls um þessi frv. fyrir þá sök, að eg sé kunnugur staðháttum. En eg vil vekja athygli háttv. deildar á því, að nú fyrir skemstu hafa verið feld fjáraukalög í því skyni að spara fé landssjóðs. Eg álít nú einhverja verstu eyðslu þá, að fjölga föstum starfsmönnum landsins. Laun fastra embættismanna má skoða sem vexti tilsvarandi höfuðstóls, þannig, að launaaukning, sem nemur 5000 kr. eru vextir af 100 þús. kr. Það kemur því út á eitt, að stofna eitt eða tvö embætti, með 5000 kr. launum og að veita 100 þús. kr. úr landssjóði eitt skifti fyrir öll. Mér virðist, að menn gjöri sér þetta ekki svo ljóst sem skyldi, því að svo reynist það oftast, að þrátt fyrir alt sparnaðarhjal, eru menn fúsir að fjölga embættum.

Eg hefi hreyft við því að fækka fjórum embættismönnum. Tveir af þeim hafa orðið embættismenn af misskilningi laganna eða af tilviljun, eða eg veit ekki hverju, en sýslumannsembættin hurfu inn í þá miklu þoku, hvort aðskilja mætti dómsvald og umboðsvald. Tillögur mínar vóru þannig ónýttar, og sá sparnaður fyrir landssjóð, sem þær höfðu í för með sér. Eg skal ekkert fullyrða um það, hve brýn nauðsyn er á að stofna þessi læknahéruð, en hitt tel eg víst, að hæpið sé, að læknar fáist í þau fyrst um sinn, nema ef vera skyldi í Bolungarvík. Vegalengdin þangað frá Ísafirði er ekki mikil, og væri miklu fé verjandi til að gjöra þann veg færan, ef komast mætti hjá nýju embætti.

Ef til vill gæti háttv. flutningsmaður þessa frv. (Sk. Th.) gefið upplýsingar um, hvort ekki myndi fært að leggja veg þaðan til Ísafjarðar. (Skúli Thoroddsen: Það er ómögulegt). Það er aðgætandi, að þótt til þess þyrfti að verja einum 10–20 þús. kr. að sprengja upp klappir, þá myndi það borga sig. Eg stóð upp aðallega til að vekja athygli á þessu. Það er altaf sagt við kjósendur og alþýðuna, að opinbera starfsmenn eigum vér ekki að hafa fleiri en nauðsynlegt er, en þegar til framkvæmdanna kemur er þeim altaf fjölgað. Hitt gengur seinna, að klippa þá burt aftur þegar þeir eru orðnir úreltir og svara ekki lengur kostnaði.