03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

20. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Skúli Thoroddsen:

Háttv. 1. þm. Hún. (G. H.) Spurðist fyrir um það, hvort ekki myndi fært að leggja veg frá Bolungarvík til Ísafjarðar, sem fær gæti verið á vetrum, og skal eg því láta þess getið, að það er ekki hægt. Á milli þessara staða er hlið, sem kölluð er Óshlíð, og má reyndar ríða hana á sumrum, en ekki má háttv. 1. þm. Hún. (G. H.) vera sundlhætt, ef hann teymir þó eigi með köflum, færi hann um hlið þessa, því að gatan er þar víða mjög tæp, utan í snarbrattri hlíðinni.

Frá því er snjóar koma fyrst og fram í miðjan júní, dettur engum manni í hug að fara þar með hest, — geta þá eigi komist á milli nema gangandi, en fara þá jafnaðarlega ekki götuna, heldur fara í fjörunni og klifra þar á sumum stöðum yfir kletta og klungur.

Eg er nú að vísu farinn að gleyma hvað sumar torfærurnar, sem á leiðinni eru, eru kallaðar, en kann enn að nefna »Pallinn«, »Stóru-ófæru«, »Litlu-ófæru« o. fl. En yfir þessar ófærur er síðan klöngrast eftir stigahöftum upp klettana, og verða menn auk þess að neyta handafls, þ. e. lesa sig upp á kaðli til að komast þar upp.

Nú er þess að gæta, að í Bolungarvík er lending feikilega ill. Þar er brimasamt mjög, jafnskjótt er hausta fer að, svo að oft og tíðum er ekki auðið að komast fram með bát, og standa menn því uppi í vandræðum læknislausir, hvað sem að hendi ber, þegar ekki gefur á sjó.

Bolvíkingar hafa því — knúðir af nauðsyninni — verið að senda þinginu beiðni um stofnun læknishéraðs þar, ár eftir ár, og man eg nú naumast hve oft eg hefi þegar flutt frumvarp þetta hér á þinginu. Það hefir einu sinni verið samþykt hér í deildinni, en háttv. Ed. vildi þá láta aðstoðarlækninn á Ísafirði flytjast til Bolungarvíkur og njóta þá, auk launa sinna, fjár þess, er Bolvíkingar buðu þá fram úr eigin vasa. En þegar til hans kasta kom, afsagði hann flutninginn og bar fyrir sig skipunarbréf sitt, sem aðstoðarlæknir á Ísafirði.

Eg vona nú að frv. þetta fái góðan byr hér í deildinni, þrátt fyrir tillögur minni hl. nefndarinnar. Annars hefi eg nú þegar talað svo oft hér í þinginu, um mál þetta, að eg get látið mér nægja að skírskota til þess, sem eg áður hefi um það sagt. Það væri og ósamkvæmni af neðri deild, að fara nú að fella frv. þetta, þar sem hún hefir samþykt það áður.