16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

57. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Eg verð að taka það fram aftur, að eg álít það óforsvaranlegt af þinginu, að fara að gera þessa ráðstöfun. Það er ekki gott að segja, hver kynni að verða niðurstaða læknanefndar í þessu máli; mér vitanlega er enginn af þeim er þar sitja, neitt sérstaklega kunnugur á þessum stöðum.

Eg heyri, að háttv. 1. þm. Húnv. (G. A.) heldur því fram, að hann hafi eins mikið vit á þessu og eg. Það er mikið gott, en það er nú hann sjálfur, sem segir það. Eg veit, að hann hefir verið kunnugur á Akureyri, meðan hann dvaldist þar, en nú er hann ekki orðinn kunnugri þar en eg og margir aðrir. Mér finst, að gangurinn í þessu máli hefði átt að vera sá, að vita fyrst vilja þeirra manna, sem það snertir sérstaklega, og þá þar næst að leita álits landlæknis. Til þess að hægt væri að ræða um nokkurn sæmilegan undirbúning á málinu, þá hefði þetta tvent átt að vera á undan gengið.

Mér hefir fundist háttv. þingm. gera mikið úr því, að Eyjafjarðarhérað hafi verið stærra en nú, þegar hann gegndi því, og hafi honum ekki orðið skotaskuld úr því. Eg verð nú þó að álíta, að hann hafi fundið nokkuð til erfiðleika við það, úr því að hann gerðist forgangsmaður þess, að fá þar skipaðan aukalækni. Hann hafði þá, það játa eg, mikið álit á sér fyrir skurðlækningar. En þótt það hafi sjálfsagt vakað fyrir honum meðfram, að útbreiða þekkingu sína, svo að hún gæti komið landinu að sem mestu gagni, þá hefir hitt þó verið aðalástæðan, að þörfin á aukalækni hefir verið til staðar, og það er hún ekki síður nú en þá. Og þó að einn læknir hafi verið látinn nægja lengi vel, þá er engin sönnun fyrir því, að honum hafi verið unt að fullnægja hverju sjúkdómstilfelli svo fljótt og vel, sem æskilegt hefði verið, þótt eg efist ekki um, að hann hafi gert sitt ítrasta til þess. Það eru þó alt af takmörk fyrir því, hvað menn geta lagt á sig.

Þá vildi háttv. þingmaður halda því fram, að aðsókn að Akureyrarspítala mundi vera minni nú en í sinni tíð. Að vísu hefi eg ekki fyrir framan mig skýrslur um það efni, en eg held, að eg þori að fullyrða, að svo sé ekki, og er það eitt meðal annara, sem styður þá skoðun mína, að þangað sækja menn mjög langt að, og jafnvel margir úr öðrum landsfjórðungum.

Það er eitt af því, sem hér hefir verið haldið fram, að ungir læknar hefði betra af því að læra hjá læknum annarsstaðar en hér í Reykjavík, til þess að venjast ferðalögum og öðru, sem því er samfara að gegna sveitahéruðum. Eg geri nú lítið úr þessu. Eg hygg, að flestir af þeim, sem hér læra, sé úr sveit og hafi vanist ferðalögum, svo að þessa þurfi ekki með.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um þetta. Eg er fyrst á móti frumv., og eg er á móti því, að vísa því til nefndar, þótt eg búist við, að það verði gert. En ef það verður gert, þá ætti málið að athugast þar rækilega, og að minsta kosti að útvega tillögur landlæknis um það.