10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson) :

Eg ætla að segja nokkur orð um breyt.till. þær, er fram hafa komið síðan málið var til 2. umr. Skal eg taka tillögurnar í þeirri röð, er þgskj. benda til. Breyt.till. eru dálítið flóknar sumar, og því ekki víst, að allir deildarmenn hafi áttað sig á þeim til fulls.

Um brtill. á þgskj. 448 þarf eg ekki að fjölyrða. Það er sjálfsögð breyting, og er ekkert annað en afleiðing af fyrri atkvæðagreiðslu.

Þá er brtill. við brtill. frá háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. Bj.), á þgskj. 444 og 434. Það eru aðaltillaga og varatillaga, og skilst mér, að till. á þgskj, 434 sé þrautavaratillaga.

Í sambandi við þessar brtill. stendur brtill. á þgskj. 449, sem er orðabreyting við brtill. háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). Ef hans tillaga verður samþykt, þá ætlast hann til þess, að hún komi inn í frumv. eins og það var samþykt við 2. umr. og verði ný 7. gr. En eg legg það til — vegna þess, að hér þarf að hafa hraðann á og flýta prentun sem mest — að hún komi aftan við frumv., við »Ákvæði um stundarsakir«. Annars verður að umturna frumv., sem þegar verður prentað upp, af því að ný grein bætist inn í það, og tekur það bæði mikinn tíma og fyrirhöfn.

Þá er viðaukatill. á þgskj. 451, sem á að vera aðaltillagan af öllum þessum breyt.till. Hana á að bera fyrst upp, og verði hún samþykt, þá eru hinar sjálffallnar. Eins og kom fram við síðustu umræðu þessa mála, voru margir óánægðir með það, að 7. gr. var feld í burtu. Einkum voru það Reykvíkingar, sem þótti það ósanngjarnt, að fá ekki fleiri en 2 þingmenn. Og ef miðað er við mannfjölda hér, þá eiga þeir óneitanlega heimting á fleirum. Verði nú breyt.till. á þgskj. 451 samþykt, þá hygg eg, að vér losnum fyrst um sinn við öll óp út af ranglátri kjördæmaskiftingu, því að ekkert kjördæmi missir sinn þingmann, þótt tveim sé bætt við í Reykjavík. Því hefir verið skotið að mér, hvort það bryti ekki bága við stjórnarskrána að fjölga þingm. En svo er ekki. Það er bæði heimilað að breyta tölu þingm. og tölu manna í hvorri deild alþingis með sérstökum lögum í 14. og 15. gr. stjórnarskrárinnar, og eins er tilætlast að verði eftir nýju stjórnarskránni. En auðvitað ber að dæma þetta eftir eldri stjórnarakránni, því að svo er tilætlast, að kosningalögin fái gildi um leið og nýja stjórnarskráin. Eg skal geta þess, að kosningalaganefndin hefir ekki í heild sinni tekið afstöðu til þessarar viðaukatillögu minnar.

Viðvíkjandi breyt.till. háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) á þgskj. 434, skal eg taka það fram, að kosningalaganefndin, eða að minsta kosti meiri hluti hennar, mun vera því mótfallinn, að farið verði að krukka þannig í eitt einstakt kjördæmi í landinu. Enda er það dálítið hæpið, og líklega ekki til annars en að skapa nýja óánægju, þó að hægt væri að friða Reykjavík með því um stundarsakir og kannske ekki til fulls.

Ef tillaga háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) á þgskj. 434 og 444 eru eru bornar saman við tillögu mína á þgskj. 449, þá er efnismunurinn sá, að í mína till. er tekið upp sams konar ákvæði og var í stjórnarfrumv., að ætlast er til, að Reykjavík verði skift sundur í kjördæmi. Í tillögu háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) er ekki vikið að þessu, heldur er ætlast til, að þingmennirnir verði allir kosnir í sama kjördæminu. Að öðru

leyti er tillaga mín engin veruleg efnisbreyting frá tillögu hans.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) hefir borið fram breyt.till. á þgskj. 452. Hann vill láta falla burtu ákvæðið um það, að kjördæmaskipun Reykjavíkur skuli vera endurskoðuð. Eg veit ekki hvað hann hefir fyrir sér í þessu. Mér finst það ekki nema sanngjarnt, ef bænum verður skift í kjördæmi, að þá megi endurskoða þau við og við, því að eins og allir vita, er íbúatalan í hlutum bæjarins mjög reikul, sérstaklega fyrir það, að bæjarhlutarnir vaxa svo misjafnt. Annars er þetta ekkert aðalatriði.

Þá hefir komið fram breyt.till. við 20. gr. frumv. frá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.). Hún er á þgskj. 446. Með þeirri tillögu er farið fram á, að ef ekki næst til prentsmiðju með hægu móti, þá megi vélrita nöfnin á seðlana, undir umsjón yfirkjörstjórnar. Það getur náttúrlega verið miklum annmörkum bundið í sumum kjördæmum, að ná til prentsmiðju, einkum að vetrinum til, en eg veit ekki, hvort það getur talist að vera í samræmi við lögin, að veita slíka undanþágu. Eg hygg, að það sé varasamt, að eiga það undir kjörstjórunum, að vélrita nöfnin á seðlana. Það mætti klessa þá og gera þá þannig þekkjanlega. Auk þess er hætt við, að seðlarnir yrði ónýttir við kosninguna, t. d. fyrir það, að þeir hefði gegnum gatast við vélritunina. Eg hygg þess vegna, að það sé hæpið að samþykkja þessa tillögu.

Þá er enn ein breyt.till. á þgskj. 450. Eg er að vísu skráður sem flutningsmaður, en öll nefndin eða mikill meiri hluti hennar hefir fallist á, að hentugra væri að hafa kjördaginn til landskosninganna ekki 1. ágúst, eins og farið var fram á frumv., heldur 1. júlí eða næsta virkan dag þar á eftir, ef 1. júlí ber upp á helgan dag. 1. ágúst er um hásláttinn, en 1. júlí er rétt fyrir sláttarbyrjun, og á þá allur almenningur miklu hægara með að sækja kjörfund. Af því helgast þessi breyt.tillaga.