15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

22. mál, vegir

Einar Jónsson:

Eg stend ekki upp af því að eg telji framsöguna svo lélega., að hún þurfi uppbótar við. En af því að eg býst jafnvel við að mótmæli fái að heyrast gegn þessu máli, þá vildi eg áður minna menn á ýms atriði er máli skifta og háttv. framsm. (S. S.) gat ekki um.

Þess er vert að geta, að sá vegur, sem hér um ræðir, verður fyrir meiri átroðningi en alment er, og líklega meiri en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu á sér stað um vegi. Það eru fleiri en sýslubúar einir, sem um þennan veg fara. Skal eg minna á nokkra aðra flokka manna, sem veginn nota, þó að þess ætti reyndar ekki að þurfa, því að vitanlega geta allir látið sér detta það í hug, ef þeir vilja á annað borð gefa sér tóm til að íhuga það. Er þá fyrst að geta Skaftfellinga, sem fara fullum fetum um veginn eins og þeim sýnist með fjárrekstra, markaðshross og fleira, sem orsakar átroðning. Þá fara Reykvíkingar um hann eftir því sem þeir þurfa, en ekki sízt útlendingar, sem stefna fremur í þá átt en nokkura aðra, vegna fornra og frægra sögustaða, svo og þeirra staða, sem frá náttúrunnar hendi eru svo gerðir, að þeir þykja merkilegir öðrum stöðum fremur. Skal eg í því sambandi láta mér nægja að minna á Hlíðarenda í Fljótshlíð, Þórsmörk, Skógafoss, Heklu, Gullfoss og Geysi.

Alt þetta orsakar, að þessi vegur verður fyrir meiri átroðningi af óviðkomandi mönnum en nokkur annar vegarspotti á landinu. Reynslan í vor hefir líka í sannleika staðfest það, að það er meiri vandi að gæta fengins fjár en að afla þess, því að vegirnir hafa í alt vor verið í mesta óstandi vegna fátæktar og framtaksleysis þeirra, sem eiga að sjá um viðhaldið. Þetta bið eg menn vel að athuga.

Ef þingmenn vilja setja sig upp á móti þessu frumvarpi — og þætti mér það að sumu leyti ekki nema eðlilegt, vegna þess að þeir munu segja að það skapi fordæmi — þá vildi eg óska þess, að þeir vildu athuga, að hér er farið með satt mál. Vegurinn sætir átroðning utanhéraðsmanna. (Björn Kristjánsson : Ekki meiri en Hafnarfj.vegurinn). Það get eg gjarna, gengið inn á. (Guðm. Eggerz: Eða Fagradalsbrautin.) Hana nota Múlasýslumenn nær eingöngu og dugar hún því ekki til samanburðar. En hvernig sem þessu máli reiðir af, þá er eg viss um, að háttv. flutningsm. (S. S.) og eg, höfum sagt það eitt um þetta mál, sem við vitum sannast og réttast. Það er líka vert að taka tillit til þess, að hér er um þau sýslufélög að ræða, sem ekki hafa gagn af strand ferðunum, t. d. Rangárvallasýsla alls ekki neitt. Vænti eg að þingið sé svo sanngjarnt, að það telji það skyldu sína að láta eitthvað í staðinn, og hér er

ekkert til, sem í staðinn getur komið, annað en góðir vegir uppi í landinu.

Hvernig, sem þetta endar nú, þá hygg eg að mér sé óhætt að spá því, að ef viðhaldi þessa vegar verður ekki létt af sýslusjóðunum, þá, leiði það beint til þess, að vegurinn verði með öllu ónýtur gerður og væri það illa farið með svo nauðsynlega og dýra samgöngubót. Eg fyrir mitt leyti álít, að þó að þetta frumvarp ætti að skapa fordæmi, sem yrði til þess, að allir slíkir vegir og hér er um að ræða, kæmist á landssjóð til viðhalds, þá væri það betra, en að knýja þá fátæku til að leggja fé í það, sem þeir eru ekki megnugir til að gera.

Eg skal svo að endingu taka undir þá ósk háttv. flutningsmanns, að háttv. deild taki eins sanngjarnlega og mögulegt er í þetta mál.