15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

22. mál, vegir

Pétur Jónsson :

Eg get tekið undir það sem háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.) byrjaði ræðu sína með, að eg hefi ekki það út á framsögu þessa máls að setja, að hún hafi verið svo linleg — mér þótti hún satt að segja vera frekjuleg. Eg kalla það frekju, að halda því fram, að alþingi, sem sett hefir þessi lög, hafi sýnt þessum héruðum ranglæti. Hér er um það að ræða, hvort grundvallaratriðið í vegalögunum um viðhald vega skuli standa eða ekki. Það getur verið að þetta grundvallaratriði sé ekki alls kostar heppilegt, þótt eg og fleiri telji það heppilegt og jafnvel nauðsynlegt, en það er ekki ranglátt þegar það gengur jafnt yfir. Eg held, að það sé einmitt ranglæti, að koma fram með svona frumvarp, en ekki hitt. Eg hefði felt mig betur við, ef farið hefði verið fram á að taka alveg af héruðum viðhaldaskyldu á landssjóðsvegum; þá hefði þó legið miklu betur fyrir að ræða málið. Mér hefir líka skilist á báðum ræðumönnunum, sem töluðu, að þeir byggist við, að þegar búið væri að létta viðhaldinu á þessum vegi af sýslusjóðunum þá myndi fleiri á eftir koma.

Þeir báru því við, að umferðin um þennan veg væri meiri en um nokkurn annan veg á landinu, og mun það rétt vera. En gæta verður að því, að hér eiga líka fjölmennari héruð hlut að máli heldur en nokkurstaðar annarstaðar á landinu. Það er þessi spotti frá vegamótunum undir Ingólfsfjalli austur að Rangá, sem hvílir á tveimur stærstu sýslufélögum landsins að halda við. Það er því ekki nema eðlilegt, að slitið á þeim vegi sé meira en á öðrum vegum, en að sama skapi líka getan meiri til að halda honum við eða vei það. Og ekki ætti útlendingar og aðrir utansveitarmenn, sem um veginn fara, að vera sveitunum til skaða. Þvert á móti er talað um, að samgönguleysi sé sveitum og héruðum til hnekkis og skaða í öllum efnum, og mun það rétt.

Í Árnessýslu hafa margir menn atvinnu af að taka á móti gestum, bæði »túristum« og öðrum, og veit eg ekki betur, en þeir taki fult verð fyrir. Og hvaða vit væri í því að byggja vegi fyrir stórfé, ef það væri ekki til eflingar menningu og atvinnuvegum héraðanna, sem vegirnir liggja um? Og hverjir geta staðið straum af vegi, ef ekki þeir, sem hafa aðalgagnið af honum ?

Nái þetta frumvarp fram að ganga, þá er þar með skapað fordæmi, sem í framtíðinni getur orðið þungur baggi fyrir landssjóðinn.