15.07.1914
Neðri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

22. mál, vegir

Sveinn Björnsson:

Eg hjó eftir því í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að hann gat þess, að vegurinn austur hefði alls ekki verið lagður með bifreiðar, »gandreiðar«, »þeysireiðar«, »sjálfrenninga« eða »umrenninga« fyrir augum. Hann sagði — og það mun rétt vera — að hann hefði þegar í byrjun ekki einu sinni verið nothæfur fyrir hestvagna. Þá vil eg vekja athygli háttv. þingm. á því, hvað um er að ræða, þegar farið er fram á, að landssjóður taki að sér viðhaldið á þessum vegi, sem ekki er hæfur fyrir þau flutningatæki, sem mest eru notuð og aukast ár frá ári. Það er í rauninni farið fram á að gera veginn alveg upp. Að leggja viðhaldsskylduna á landssjóð er sama og að skylda landssjóð til að leggja veginn um. Eg vil þá jafnframt skjóta því fram, fyrst vegurinn er ófær yfirferðar nema um blásumarið, hvort ekki geti komið til álita, að breytt væri aðferðinni, sem höfð hefir verið við lagningu vegarins, þannig að »púkka« hann í stað þess að vera ár eftir ár að bera ofan í hann mold, sem ekki kemur til neins gagns. Það er ekki tjaldað nema til einnar nætur. Þetta vona eg að væntanleg nefnd taki til íhugunar. Þessi aðferð var höfð við lagningu vegarins milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Hún hefir reynst ágætlega og eg held að hún hafi verið hlutfallslega ódýr. Mér er kunnugt um, að hægt er að ná til brunahrauns víða á þessum slóðum, til þess að mylja grjótið úr og eg er þess fullviss, að það borgar sig mikið betur heldur en að henda tugum þúsunda króna ár eftir ár til viðhalds vegarins og hann er jafnófær ár eftir ár.

Þá vil eg leiðrétta það, sem háttv. 1. þingm. Árn. sagði, að þessi vegur væri að eins fyrir Reykvíkinga. Eg vildi skora á hann að fara í gandreið austur, mundi hann þá eflaust mæta nokkrum af 10 hesta lestunum, og bið eg hann þá athuga, hversu margir Reykvíkingar eru með þær lestir. Og ef hann vildi halda manntal á því, hverjir mest nota bifreiðarnar, þá hygg eg að hann fyndi þar fleiri af sínum kjósendum en Reykvíkingum. (Sigurður Sigurðsson: En hver hefir haginn af bifreiðunum?).

Auðvitað kjósendur háttvirts þingmanns, sem nota þær til að flytja sig og afurðir héraðs þeirra á markað.