31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

22. mál, vegir

Pétur Jónsson:

Eg þarf ekki að tala langt mál, vegna þess, hve álit minni hl. nefndarinnar er rækilegt, og því er eg svo hjartanlega samþykkur. Það er aðeins vegna þess, að eg er ekki viss um, að menn hafi gefið nefndarálitinu nægilegan gaum, að eg stend upp til þess að leggja nokkur orð í belg, skoðunum minni hl. til styrkingar. Eg fæ ekki betur séð, en að stefna meiri hlutans sé sú, að nema burtu alla ábyrgð sýslnanna á viðhaldi vega þeirra, sem bygðir eru á landssjóðs kostnað, hvort sem það eru flutningabrautir eða akfærir þjóðvegir. En hvað þýðir það? Eg sé ekki betur, ef tillögur meiri hl. verða samþyktar, en að flestir eða allir þeir vegir, sem nú hvíla á héruðum að því er viðhaldskostnað snertir, lendi á landssjóði. Og það þýðir ekki meira né minna en það, að meginið af því vegafé, sem veitt er árlega, gengur til viðhalda veganna, eins og minni hl. sýnir svo glögglega. Þeir vegir, sem ákveðnir eru í vegalögunum og ekki eru þegar gerðir verða að bíða, hver veit hve lengi. Þannig kemur þetta »réttlæti« niður á þeim, sem beðið hafa í 20 ár eftir þeim vegum, sem þá voru teknir í vegalögin.

Að þessu leyti er tillaga háttv. þm. Dal. (B. J.) og nefndarinnar, um að taka veginn milli Dalasýslu og Strandasýslu í tölu þjóðvega, ekki til þess að íþyngja landssjóði. Hún yrði til þess að koma því til leiðar, að vegurinn yrði aldrei lagður, vegna þess hve aftarlega hann stæði í röð landssjóðsvega, og alt vegaféð gengi til annars.

Það hefir verið reynsla margra héraða, sem hafa haft fyrirheit um þjóðvegi í vegalögunum, að þau hafa orðið að bíða. Margir slíkir vegir bíða enn þann dag í dag án þess að nokkur skifti sér af því.

Nei, hún þýðir meira en þetta., þessi breyting, að kippa burtu frumtakinu úr vegalögunum, hún þýðir það, að kipt verður burtu frumtakinu úr ýmsum öðrum lögum, og að gersamleg umbylting verður gerð á því skipulagi, sem þing og stjórn hafa verið að byggja upp í mörg ár, því skipulagi, sem er eina fasta undirstaðan undir fjármálum vorum og eina tryggingin fyrir því, að vér getum haldið þeim á farsællegum grundvelli. Þessu skipulagi, sem svo langan tíma og mikla erfiðismuni hefir þurft til að koma á, og bygt er bæði á sanngirni og virðingu fyrir því, sem þingið hefir áður gert, má ekki kippa burtu á einu þingi.

Hver mundi afleiðingin verða, ef þetta væri gert? Hvernig færi um símana? Öllum héraðsstyrk til byggingar og starfrækslu þeirra síma, sem landssjóður hefir lagt, mundi verða kipt í burtu og alt saman lenda á landssjóði. Það hefir verið nóg viðleitni hér á þinginu í þá átt, og ef menn geta ekki staðið af sér þá áleitni í vegamálunum, þá er ólíklegt, að mönnum gangi það betur í símamálunum.

Eins færi um sýsluvegina. Þess mundi ekki langt að bíða, að allir sýsluvegir yrði gerðir að landssjóðsvegum. Krafan um það liggur í loftinu eins og reynslan hefir sýnt, og brautin er lögð fyrir þá inn í landssjóðinn.

Þá er alþýðufræðslan: hvernig færi um hana? Henni mundi verða dembt allri, eins og hún legði sig, beinlínis á landasjóðinn. Og það væri ekki nema eðlilegt, því að það væri í fullkomnu samræmi við hitt. Menn hafa það hvort sem er einhvernveginn á meðvitundinni, að léttara sé að borga fé í landssjóðinn og láta síðan taka það þaðan og verja því til almennra þarfa, heldur en að borga sömu upphæðina og í sama augnamiði í nokkurn annan sjóð.

Og þegar þessu hefir nú verið komið í kring, að allir vegir, símar og alþýðuskólar eru komnir á landssjóðinn, þá þarf hver að ota sínum tota, því að enn hafa ekki allir nægilega vegi, síma né skóla. Þá koma kröfurnar úr öllum áttum um veg þar, síma hér, skóla þar o. s. frv., því að engum finst sér framar bundinn baggi með slíku, úr því að landssjóður á að standast allan kostnaðinn. Þá verður samkepni milli héraðanna og þar af leiðandi milli þingmanna. Alt þingið verður tóm samkepni og ef ekki það, þá tóm hrossakaup. Hér á dögunum var felt fjáraukalagafrumvarp af þeim ástæðum, að sagt var, að menn þyrði ekki að hleypa ástríðum þingmanna út á þann vígvöll, sem þetta litla fjáraukalagafrumvarp haslaði þeim. Menn óttuðust hrossakaupin. Eg hefi þá álit þeirra háttv. þingmanna, er þetta gerðu, fyrir mér í því, að hér geti verið hætt við hrossakaupum í stórum stíl.

Og eg get að nokkru leyti skrifað undir þetta með þeim, að minsta kosti er eg viss um, að svo verður, ef kipt verður burtu úr helztu lögunum þeim vörnum fyrir flóði fjárbónanna á þinginu, sem bezt hafa dugað hingað til.

Þá skil eg ekki, hvaða taum þingm. geta haft á ástríðum sínum í þessu efni þegar ekkert ákveðið »princip« er til að miða við. Þá er hætt við að þingið verði ekki lengur þing, heldur brallstöð, þar sem hver reynir að bjarga sér og sínu kjördæmi eins og bezt gengur.

Eg vil benda á það í þessu sambandi, að þessi viðhaldsskylda, eða með öðrum orðum það, að héruðin standi straum af vegum sínum, er ekkert sérstakt fyrir oss hér. Í því efni er hægast að líta til þess landsins, sem næst oss er, til Noregs. Þar hvílir bæði lagningarkostnaður og viðhaldið á öllum bygðavegum á héruðunum. Ríkissjóður leggur einungis mismunandi hátt tillag eftir atvikum til þess að leggja bygðavegina, en hann leggur ekkert til viðhalds þeirra. Það eru að eins vegir á milli bygða, sem ríkissjóður kostar að öllu leyti. Eg hefi heyrt fullyrt, að þetta skipulag, sem líklega er meira en 50 ára gamalt, hafi kipt í lag öllu því ólagi, sem var þar á vegamálunum áður, eða með öðrum orðum, að það hafi skapað vegakerfi Noregs. Eg hygg því, að oss mundi vera hollast að taka tillit til þessarar reynslu Norðmanna, ef vér getum ekki tekið tillit til þess, sem í hlutarins eðli liggur.

Eg hefi talað þetta til þess að það sjáist, hvað fyrir mér hefir vakað í vegamálunum frá því fyrsta. Get eg að öðru leyti skírskotað til þess, sem eg hefi áður sagt hér á þinginu bæði í ræðum og nefndarálitum.

Eg vona, að eg standi ekki einn uppi með þetta, en fari svo, að þeir, sem sömu skoðun halda fram og eg í þessu máli, verði í minni hluta nú og framvegis, þd er landið áreiðanlega í hershöndum.