31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

22. mál, vegir

Þórarinn Benediktsson:

Nefndin, sem kosin var til þess að íhuga frv. á þskj. 37 og 49, hefir klofnað eins og menn vita og gefið út tvö nefndarálit, en auk þess hefi eg skrifað undir nefndarálit meiri hl. með fyrirvara. Annars vóru margir meiri og minni hlutar í nefndinni eins og nefndarálitið sýnir.

Mér getur ekki annað fundist, en að talavert mikil sanngirni mæli með því, að landið sjái um viðhaldið á þeim vegum, sem eru aðalflutningaæðar landsmanna. En hins vegar játa eg fúslega, að viðhaldið sé að ýmsu leyti betur komið í höndum héraðanna.

Eg skal ekki deila um, hvor aðferðin er heppilegri, báðar hafa sem sagt mikið til síns máls. En eg vildi að eins kasta fram þeirri spurningu í þessu sambandi, hvar sýslusjóðunum sé ætlað að taka alt það fé, sem þarf til að halda þeim vegum við, sem þeim er ætlað eftir vegalögunum. Í áliti háttv. minni hl. er niðurstaðan sú, að viðhaldskostnaðurinn, sem komi til að hvíla á héruðunum, muni nema alt að 100 þús. kr., á ári, þegar vegirnir eru komnir í það horf, sem vegalögin frá 1907 gera ráð fyrir. Það er engin smávegis upphæð fyrir vor fátæku sýslufélög, og mér er ekki ljóst, hvernig þau eiga að fá risið undir því. Og býst eg þó ekki við, að þessi fjárhæð sé of hátt áætluð, miklu fremur hið gagnstæða. Því er heldur ekki að heilsa, að þetta sé það eina, sem sýslufélögin þurfi að leggja til vega, þau hafa líka sýsluvegina á sinni könnu og alt viðhaldið á þeim; nemur það stórfé, sem til þeirra þarfa gengur.

Þetta er enn tilfinnanlegra fyrir þá sök, að sýslusjóðirnir hafa engar fastar tekjur. Þeir verða að nurla saman tekjum sínum með niðurjöfnun, eftir meingölluðum mælikvarða, sem er orðinn langt á eftir tímanum. Að vísu hafa þeir lítilsháttar tillag til sýsluvega, sem er svo lítið, að það nægir ekki til þarfa sýsluveganna. Eg sé því ekki betur, en að þingið hafi gleymt því á sínum tíma, þegar það dembdi öllu þessu vegaviðhaldi á sýslusjóðina, að þeir þurfa að hafa tekjur til að standast slík útgjöld. Eg minnist þess ekki, að nokkur tilraun hafi verið gerð í þá átt að afla sýslusjóðunum fastra tekna til þess að standast þessi útgjöld og önnur, sem hefir verið hrúgað á þá nú að undanförnu.

Eg sé ekki, að um annað en tvent sé að velja í þessu máli, ef ekki á að stýra út í ófærur, annaðhvort að sýslusjóðunum verði aflað meiri tekna til þess að þeir geti staðist útgjöldin, sem af þessu leiðir, eða að létt verði af þeim viðhaldinu á aðalflutningabrautunum og þjóðvegunum. Eins og eg tók fram áðan, þá játa eg fúslega, að eg felli mig að mörgu leyti betur við, að viðhaldið sé kostað af héruðunum, en sem sagt, eg sé ekki, að það sé fært, nema eitthvað verði gert í hina áttina, sem eg nefndi.

Að því er snertir einstaka liði þessa máls, þá skal eg ekki fjölyrða um þá. Eg býst við, að hlutaðeigandi flutningsmenn mæli hver með sínu héraði.

Viðvíkjandi breyt.till. á þskj. 223 1. lið, skal eg geta þess, að svo framarlega, sem landsjóður á að taka að sér viðhaldið á nokkurri flutningabraut, þá álít eg, að Fagradalsbrautin eigi að standa þar með þeim fyrstu, ef ekki fremst allra brauta. Fagradalsvegurinn liggur einvörðungu um óbygðir, og eins og allir vita, er mikill munur á að halda slíkum vegum við og þeim vegum, sem innan héraðs liggja og jafnframt er til ómetanlegs gagns fyrir samgöngur innanhéraðs. Sýnist meiri ástæða til að héruðin kosti viðhald þeirra að einhverju leyti. Eg verð þess vegna að halda því fram, að svo framarlega, sem nokkur breyting verður hér gerð, þá eigi þessi breyting skilið að verða með þeim fyrstu.

Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða um málið, en sýna með atkvæði mínu, hvernig eg lít á einstaka liði þess, hvern um sig.