31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

22. mál, vegir

Eggert Pálsson:

Mig furðar ekki þó að álit meiri hl. nefndarinnar verði fyrir mótmælum úr ýmsum áttum. T. d. kom mér það ekki á óvart, að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) lítur þannig á málið, sem hann gerir, því að hann hefir ávalt borið fyrir brjósti það »princip« sem vegalögin byggjast á. En hitt kom mér alveg á óvart, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) skyldi nota ófriðarhættuna í Norðurálfunni til mótmæla gegn þessum breytingum, er vér stingum upp á. Mér er ekki ljóst að þetta frumv. standi í nokkru sambandi við ófriðinn. En ef vér megum ekki gera lítilsháttar breytingar á vegalögunum, vegna þessarar ófriðarhættu, þá finst mér eins gott að leggja algerlega árar í bát og hætta hér öllum störfum. Útgjöldin, sem af þessu leiða, koma tæplega til útborgunar meðan á styrjöldinni stendur, þó að svo færi, að eitthvað yrði úr henni. Og líka er hægðarleikur að ákveða, að lögin skuli ekki ganga í gildi fyrr en Norðurálfuófriðurinn er afstaðinn.

Úr því að eg stóð upp á annað borð, skal eg gera lítilsháttar grein fyrir skoðun minni á þessu máli.

Hvað snertir frumv. eins og það kom frá okkur flutningsmönnunum, þá gerði eg nokkra grein fyrir ástæðum þeim er eg og við flutningsmenn þóttumst hafa fyrir því um leið og það var lagt fram. Vona eg, að það standi því glögt fyrir mönnum, hversvegna frv. er framkomið. Það, sem aðallega vakti fyrir mér var sú staðreynd, sem og viðurkenning frá landsverkfræðingnum og öðrum fyrir því, að vegirnir fyrir austan hefði verið svo illa gerðir í upphafi, að viðhaldið væri óeðlilega dýrt. Ef þeir hefði verið vel gerðir upphaflega mundi viðhaldið ekki kosta nú nándar nærri eina mikið og það gjörir. Þetta, að vegirnir vóru mjög illa gerðir í byrjun eða í illu ásigkomulagi þegar þeir vóru afhentir, er það sem skapar mesta óánægjuna í Árnes- og Rangárvallasýslum, og fyrir það finst sýslubúum, að þeir eigi skilið að fá einhverjar bætur á einn eður annan hátt.

Það hefir verið sagt, að mikið fé hafi farið í þessa vegi í Árnes- og Rangárvallasýslum. Það er auðvitað hverju orði sannara, en þó gerir ýmislegt það að verkum, að það fé getur ekki talist að hafa verið óeðlilega mikið. Í fyrsta lagi það, að staðhættir sýslnanna eru þannig, að það gefur þeim rétt til mikils fjár til samgangna. Þær hafa ekki aðgang að neinni höfn austanfjalls svo teljandi sé, og þar af leiðandi hafa þær hverfandi lítið gagn af sjávarsamgöngum landsins. Þá má telja það, að þessar sýslur eru mjög þéttbygðar og mega teljast hjarta landsins, að því er landbúnaðinn snertir. Fyrir því borga sýslurnar tiltölulega mjög mikið í landsjóðinn, þó að ekki sé unt að benda á það í hagskýrslunum, sem beint gjald frá þeim. Peningarnir frá þeim fara sem sé krókaveginn, ýmist um Vestmannaeyjar eða Reykjavík og eru þá einatt reiknaðir tekjumeginn hjá þessum stöðum. Ef 10 þús. manns eða þar yfir, er í þessum tveimur sýslum, þá liggur það beint í augum uppi, að það sé ekki svo lítill hluti af tolltekjum landsins, sem frá þeim kemur, því að tollskyldar vörur þurfa þessar 10 þús. manna vitanlega að brúka, svona líkt og aðrir, þótt það kosti þá meira en aðra að afla sér þeirra eða draga þá að sér. Það sýnist því ekki óeðlilegt, að þessar sýslur fái allríflegt tillag til vega einna, og að landsjóður meira að segja taki að sér viðhaldið á þessum vegarkafla, einkum þegar tillit er tekið til hinnar illu eða óvönduðu gerðar hans í upphafi, og að það er aðallega fyrir þess sakir, að viðhaldið er svo dýrt, að sýslurnar rísa ekki undir því.

Það var rétt, sem háttv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.) tók fram, að þingið hefir aldrei hugsað neitt um að gera sýslusjóðunum mögulegt að standast þau útgjöld, sem á þá hefir verið hrúgað þing eftir þing. Það er einungis ætlast til, að þeir knýi alt út með niðurjöfnun, en þau gjöld eru nú orðin svo vandræðalega há, að ekkert útlit er fyrir, að menn geti risið undir þeim til lengdar.

Þessi orð mín skal eg nú láta nægja, að því er snertir frumv. okkar, en líta að eins stuttlega á aðrar breytingar sem fram á er farið.

Mér virðist vera mjög líkt á komið með Stykkishólmsveginum og veginum fyrir austan, þó að eg reyndar viti ekki, hvort sá vegur hefir verið eins illa gerður í upphafi sem hann. En hvað sem því líður, þá finst mér engin sanngirni mæla með því að skella öllum viðhaldskostnaðinum á þessi tvö fátæku sýslufélög, Mýrasýslu og Snæfellsness- og Hnappadalssýslur, og það því síður sem not vegarins hljóta að vera, hvað Snæfellsnessýslu snertir, fremur lítil.

Eg hefi altaf álitið, að fylsta sanngirni mælti með því, að landsjóður hefði á hendi viðhaldið á Fagradalsbrautinni.

Eins og háttv. 1. þm. S.-Múl. (Þ. B.) upplýsti, liggur sú braut um óbygðir, og samkvæmt þeirri reglu, að landsjóður eigi að kosta viðhaldið á fjallvegum, ber honum viðhald þessarar brautar. Þetta hefir líka í rauninni verið viðurkent af þinginu, með því að það hefir ákveðið að landsjóður kostaði 1/3 viðhaldsins. Ef þinginu hefði ekki fundist nein sanngirni mæla með þessu, þá hefði það ekki átt að ákveða, að landsjóður tæki neinn þátt í viðhaldakostnaðinum á þessum vegi fremur en á öðrum. En þingið hefir nú einmitt litið svo á, að landsjóði bæri í raun og veru að bera allan kostnaðinn af viðhaldi þessarar brautar, en aðeins heimtað að Múlasýslur legði til 2/3 hluta hana til þess að ná í fé frá þeim, en ekki af því, að það áliti, að fult réttlæti væri fólgið í því.

Hvað það snertir, að vegur frá Búðardal í Hvammsfirði til Borðeyrar verði gjörður að flutningabraut, þá skal eg taka það fram, að eg tel mjög líklegt að sá vegur mundi koma til að hafa mjög mikilvæga þýðingu í framtíðinni. Það sjá allir, ef þeir líta á landkortið, að yfir haftið, sem skilur Vestfirði frá meginlandinu, mundi verða sá styzti landvegur, sem um er að gera milli Suður- og Norðurlands. Ef þessvegna að því ræki, að koma þyrfti vörum héðan að sunnan og norður, er að gæti borið, þá er hafþök leggjast fyrir Norðurland, þá myndi verða margfalt ódýrara að flytja þær þar yfir landið, en að flytja þær landveg alla leið frá Borgarnesi. Það var þetta, sem fyrir mér vakti, er eg gekk inn á þessa breytingu. Hvað það hefir mikla þýðingu, hvort landvegir eru stuttir eða langir, vita þeir bezt, sem lengi hafa átt að búa við það, að flytja nauðsynjar sínar langar landleiðir.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið, en læt þetta nægja að sinni.