31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

22. mál, vegir

Framsögum. meiri hlutans (Bjarni Jónsson):

Mér þykir það eiginlega hálfleiðinlegt að þurfa að ræða þetta mál lengi. En maður getur varla varist því að tala nokkuð lengi, þegar hinir, sem í móti mæla halda svona langar ræður.

Eg skal byrja þessa ræðu mína með því, að þvo mínar hendur. Þetta langa nefndarálit minni hlutans, sem á að verja þessi »frumtök og princip« í vegalögunum er ekkert nema lengdin. Ég gæti því með góðri samvizku slept að tala nokkuð um það. Það eru að eins spádómar út í loftið og fimbulfamb.

Þar sem háttv. framsögumaður minni hlutans sagði, að nú væri ákveðið, að enginn flóabátur yrði hafður á Húnaflóa, þá get eg sagt honum þau tíðindi, að framtíð Húnvetninga og Dalamanna er ekki ákveðin með tillögum samgöngumálaráðuneytisins. Vér vitum það Dalamenn, að það líða ekki mörg ár þangað til að menn almennt sjá það, að það verður ódýrasti flutningurinn með vörur milli Suðurlands og Norðurlands, að fara með þær héðan og inn í Hvammsfjarðarbotn og flytja þær svo eftir flutningarbraut þaðan yfir til Borðeyrar. Þá sjá þeir það Húnvetningar, að núverandi háttv. 1. þingm. þeirra hefir ekki gert þeim gagn með tillögum sínum.

Sami háttv. þingmaður hélt því fram, að Húnvetningar hefði ekkert gagn af þessum umrædda vegi. Eg veit ekki, hver hefir gagn af slíkri braut, ef þeir hafa það ekki. Ætli þeim þætti ekki munur á vegalengd milli Borðeyrar og Hvammsfjarðar eða milli Borðeyrar og Borgarness, þegar þeir eru að fara með horbikkjur sínar á vorin í ófærð suður yfir Holtavörðuheiði. Meðan að auður sjór er meðfram landi, er hægt að flytja allar vörur sjóleið frá Borðeyri til allra hafna í Húnavatnssýslu. Það eru því Húnvetningar, sem hefði aðalgagnið af þessari braut, ef hún kæmist á, og miklu meira gagn en Dalamenn geta af henni haft.

Það er kynlegt, að ekki skuli allir sjá, að svo er sem náttúran hafi gert þenna veg, sem háttv. minni hluti vill fyrir hvern mun fá komið fyrir kattarnef. Það, sem háttv. minni hluti ætlar að setja í staðinn fyrir þenna veg, er Borgarnessvegurinn, vegur, sem yrði miklu meira en helmingi dýrari, því að til þess að leggja hann þyrfti meðal annars að naga sundur allan Kattarhrygginn hjá Sveinatungu og brúa allar torfærur þaðan fram á heiðina, og þær eru margar.

Svo er líka þess að gæta, að Laxárdalsheiði er afarsnjólétt, en á Holtavörðuheiði er mjög snjóþungt. Það yrði því miklu meiri not að veginum frá Borðeyri til Hvammsfjarðar, heldur en Borgarfjarðarveginum. og innsiglingin inn á Hvammsfjörð er ólíkt betri en inn í Borgarnes. Alt þetta tal háttv. minnihluta um þetta efni, er því, eins og allir geta séð, spádómur út í loftið og vitleysa.

Eg get ekki að því gert, þó að háttv. minnihluti hafi ekki heyrt talað um það, að Breiðfirðingar ætli að útvega sér bát til vöruflutninga á Breiðafirði. En þetta verður þó áreiðanlega.

Eg get nú látið útrætt um þetta atriði, og kem eg þá næst að háttv. þm. S.-Þing. (P.J.), sem eg ætti ef til vill heldur að kalla brallstöðvarstjóra Suður-Þingeyinga. Eg teldi það ekkert skaðlegt um þessi »frumtök« og »princip«, sem hann hefir komið inn í lögin, þótt þau yrði afnumin. Eg segi þetta ekki af því, að eg vilji særa háttv. þingmann, því að okkur er heldur vel til vina. En eg veit, að hann finnur til föðurgleði af þessum dæmalausu »principum« sínum. Annars vildi eg að eins nefna það, þó að eg ætti ekkí að fara að tala um fræðslulögin og »princip« þeirra í sambandi við vegalögin, að það væri þakklætisverk, ef þeir menn, sem fræðslulögin sömdu, hefði ekki verið að reisa þessi skólahús upp um allar sveitir skólahús, sem standa auð allan veturinn —, en hefði lagt einhvern vegarspotta í staðinn. Menn hefði betur lagt steinana, sem skólahúsin eru bygð úr, í brúarspotta frá Búðardal til Borðeyrar.

Það kemur mér ekki við að svara því, sem sagt hefir verið um hrossakaup í sambandi við þessi lög og fjáraukalögin. Þó vildi eg geta þess, að mér finst undarlegur vegur liggja frá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) til þeirrar athugasemdar, sem gerð var hér í deildinni, þegar heimildarlögin komu fram. (Einar Arnórsson: Það er ekki vegur, það er vegleysa). Ólagður vegur er það að vísu ekki, en hann er nokkuð dýr, því að hann er lagður úr hugsanavillum og hrærigraut. Það er ekki gott fyrir þá, sem alt af eru með »princip« og »frumtök« á vörunum að vera aldrei sjálfum sér samkvæmir, því að svo getur farið, að hvað reki sig á annað.

Eg sé engan annan grundvöll vegalaganna en þann, að nota neyð manna til að láta héruðin »blæða«, eins og var t. d. við lagning Fagradalsbrautarinnar. Þannig hefir þetta komið fram á brallstöðinni svokölluðu. Alveg eins er um símana; sum héruð þurfa að borga þá, sum fá þá óbeðið endurgjaldslaust. Allir símarnir og vegirnir eru þó borgaðir af héruðum landsins, því að hvaðan annarsstaðar að en þaðan koma landssjóði tekjur? Til þess að koma jöfnuði á þetta væri vel til fundið, ef þurfa þætti, að auka tekjur landssjóða með nýjum skattalögum, og því væri eg miklu hlyntari, en að leggja viðhald veganna á héruðin.

Um það atriði, að útvega sýslunum nýjar tekjur, hefi eg engan heyrt neitt segja; nema verkfræðing landsins, auðvitað skynsamlega, sem við mátti búast af honum. En eg held, að það sé síður framkvæmanlegt heldur en hitt, að útvega landssjóði nýjar tekjur.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) hefir talað röggsamlega fyrir frumv., einkum það er tekur til vegarins austanfjalls; finst mér það sanngjarnt og alveg rétt hjá honum og öðrum, sem vilja að menn íhugi, hve hverfandi lítil not austursýslurnar hafa af strandferðunum. Auk þess játaði verkfræðingur landsina það á nefndarfundi, að hann vorkendi Rangæingum að hafa þurft að taka við jafnlélegum vegi sem Holtaveginum, sem er hálfur sokkinn, því að vatn flæðir yfir hann. Eg er ekki að segja, að nokkur eigi sök á þessu, en af þessu má sjá, hve óheppilegt er að afhenda slíka vegi. Það má alveg eins segja: Legðu veg þarna og haltu honum sjálfur við. Þá væri beina skyldu um að ræða, en ekki látalæti, eins og vegalögin benda á.

Um hrossakaup skal eg ekkert segja, hvort átt hafi sér stað á þessu þingi, en ekki hafa þau verið í þessu máli og ekki fer eg í þau og mun aldrei fara.