31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

22. mál, vegir

Einar Arnórsson:

Eg skal vera stuttorður. Það eru að eins nokkur atriði í áliti minnihluta nefndarinnar, sem eg vil minnast á.

Háttv. minnihluta er auðsjáanlega mikið kappsmál að koma frumv. fyrir kattarnef; í því skyni hefir hann samið mjög langt nefndarálit og þar málað upp og stækkað allar ástæður gegn því.

Minnihlutinn virðist hafa gert samanburð á veginum um Árness- og Rangárvallasýslur og Húnvetningabraut. Má vera, að ekki sé mikill munur þessarra vega að lengd; það atriði hefi eg ekki rannsakað, og veit því ekki um það. En aðalatriðið er ekki þetta, vegalengdin, heldur hverjum vegirnir komi að mestu haldi, og á hverja þeir leggist þyngst, vegna notkunar. Þótt nú Húnvetningabraut sé jafnlöng sem vegur sá, er ræðir um í þessu frv., þá er viðhaldið hér miklu meira, af því að umferðin hér er svo margfalt meiri en nyrðra. Um Húnvetningabraut fara aðallega Húnvetningar og svo einhver lítilsháttar strjálingur af fólki, austan og vestan Húnavatnssýslu. Á þessum slóðum nota menn fremur innfjarðabátana en landveginn. Þessu víkur alt öðruvís við sunnanlands. Þótt þar eigi að heita strandferðamynd, þá er þeirra mjög lítil not, ef til vill lítilsháttar til vöruflutninga, en alls engi fyrir ferðamenn. Þessu veldur hafnleysið. Hér er svo brimasamt, að menn geta átt það á hættu að komast alls eigi í land, ef menn fara hér með strandferðabátunum; þess vegna ferðast menn yfirleitt landveg hér. —

Þetta atriði hefði háttv. minni hl. átt að athuga og benda á í margföldun og deilingu sinni í nefndarálitinu.

Í járnbrautarmálinu á síðasta þingi komu fram nokkurnveginn ábyggilegar skýrslur um ferðamannafjölda um veginn austan fjalls. Það eina ár, sem talið var, munu hafa farið um þenna veg 12–16 þús. manna. Eg skal ekki segja um það, hve mikil umferðin hefir verið í Húnavatnssýslu, en hygg, að eigi muni hún hafa numið nema örlitlum hluta þessarar tölu. Á sama tíma fóru um veginn eystra hátt á 4. þús. vagna.

Þessi samanburður háttv. minni hl. er því gjörsamlega villandi og öllu snúið við.

Minni hl. er svo lævís, liggur mér við að segja, að taka líka Borgarfjarðarbrautina til samanburðar og segir, að um hana neðantil fari allir Norðlendingar á leið norður og suður. Þetta getur þó að eina náð til þeirra, sem landveg fara; en hve margir eru þeir? Eg ætla, að flestallir noti strandferðirnar á leið norður og suður í land, en fari ekki landveg.

Það er ekki heldur nákvæmt hjá háttv. minna hl., er hann segir, að þessum sýslum, Árness- og Rangárvallasýslum, beri að eins að tiltölu 6–7 þús. kr. af fé því, sem varið er til skipaferða. Eg efast ekki um, að ef talið væri saman alt fé bæði til reglulegra strandferða, styrkur til skipaferða og innanfjarðabáta, þá mundi upphæðin verða hærri. En þetta skiftir ekki máli, því að vegirnir eystra mundu ekki verða minna notaðir fyrir það.

Enn segir háttv. minni hl. að bifreiðir spilli ekki vegum; þar um skal eg ekkert segja, en vel má vera, að þær spilli vegum; engin reynsla er fengin um það.

Ennfremur kemur háttv. minni hl. með þá ástæðu, að ef sveitirnar rísa ekki undir viðhaldi veganna, þá geri landssjóður það ekki heldur, og ef viðhaldið verður ofþungt, þá sé vitleysa að leggja vegina.

Eg held nú ekki að það sé vitleysa. En ef svo er, eiga þá sýslurnar um tíma og eilífð að bera byrðarnar af vitleysum þeim, sem löggjafarvaldið óbeðið hefir lagt á herðar þeim?

Annars sé eg ekki mjög mikinn mun á því, hvort gjaldið er tekið beint úr vösum sýslubúa eða úr landssjóði, en þó kemur það réttlátlegar niður, ef það er tekið úr landssjóði, að minsta kosti fyrir sum héruð landsins, eins og austursýslurnar.

Háttv. minni hl. telur, að viðhaldið muni verða dýrara landesjóði heldur en héruðunum. Það má vera. En viðhaldið verður þá betra, því að þá hefir landsverkfræðingurinn umsjón með því en fátæk sýslufélög reyna að komast út af því á sem léttastan hátt, sérstaklega þar sem þessi kvöð er ranglega á þau lögð. Það getur líka verið, að kaupgjald sé hærra, ef landssjóður sér um viðhaldið. í því liggur þá, að sýslubúar tapi á því að vinna verkið fyrir lægra verð. Þeir gera það þá í guðs þakka skyni, og skal eg ekki segja um, hvað unnið er við það.

Ekki veit eg um, hvernig vegirnir hafa verið, er þeir vóru afhentir í byrjun, en til er álit landsverkfræðingsins um það, að Holtavegurinn hafi verið mjög lélegur, og slíkt hið sama nokkur hluti Flóavegarins. Minni hlutinn dregur af því ályktun, að ekki sé sýnt, að þessir vegir hafi verið afhentir í lakara ástandi en aðrir vegir. Um það vantar allar skýrslur. En um Holtaveginn og Flóaveginn sést það svart á hvítu, að þeim var mjög ábótavant þegar afhending fór fram.