31.07.1914
Neðri deild: 29. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

22. mál, vegir

Björn Hallsson:

Umræður eru orðnar langar, og gæti það verið næg ástæða fyrir mig til þess að falla frá orðinu, en mér verður varla brugðið um það, að eg teygi umræðurnar venjulega.

Þegar eg las bæði nefndarálitin, þá hafði eg strax mikla tilhneigingu til þess, að hallast að minni hlutanum. Það er talsvert athugavert, að skella viðhaldinu á öllum þessum brautum á landssjóð. Eg held eftirlit með viðhaldi veganna verði betra og ódýrara ef sýslurnar hafa viðhaldsskylduna, heldur en að eftirlitið sé framkvæmt eingöngu héðan úr Reykjavík. Ennfremur yrði vont að takmarka frekjulegar kröfur, sem koma myndi úr öllum áttum til þingsins, ef viðhaldsskyldunni væri dembt á landssjóð, því að þá yrði ekki um annað hugsað, en að heimta sem allra mesta vegagerð. En játa skal eg það, að erfiður baggi er viðhaldið fyrir sýslurnar, þegar tekjurnar vantar til að standa straum af því. Eg hefði felt mig betur við það, að reynt hefði verið að leita að tekjustofnum handa sýslusjóðunum, það hefði verið hyggilegri og heppilegri leið. Það liggur nú ekki fyrir, og mér hefir ekki dottið í hug nein sérstök leið til þess, svo að eg skal ekki fara langt út í það, en um það ætti menn að hugsa, því að ekki er rétt að demba stöðugt meiri og meiri kvöðum á sýslusjóðina, en útvega þeim engan tekjustofn til þess að standast útgjöldin. Að taka svona einn sérstakan vegakafla út úr, eins og hér er um að ræða, er vitanlega mjög varhugaverð braut, landssjóðs vegna. Betra hefði verið að taka öll vegalögin frá rótum til athugunar, svo að það sæist greinilega, hvern dilk þetta drægi á eftir sér. Eg gæti hugsað, að hann yrði nokkuð stór.

Það stendur víða svipað á og með þessa vegi, og yrði þá landssjóður að taka að sér viðhald á þeim vegum líka. Fagradalsbrautin yrði þar einna efst á blaði, þar sem hún er fjallvegur. En þrátt fyrir það, þótt hún sé ein af þeim fáu vegum, sem nú á að færa á herðar landssjóðs, þá get eg ekki verið með þessu frumvarpi, því að eg álít stefnuna varasama mjög og fylgi því sannfæringu minni en ekki hlutdrægni vegna kjördæmis míns. Eg læt mér á sama standa um breyt.till. á þskj. 223, en greiði atkvæði á móti frumv. í heild, hvernig sem atkvæðagreiðsla gengur um þessa breyt.till., og skal svo ekki lengja umræður frekara.