11.07.1914
Neðri deild: 9. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

34. mál, friðun fugla og eggja

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Það var annars nógu gaman að þessari ræðu háttv. 2. þingm. S.-Múl. (G. E.). En ekki skil eg, á hverju hann byggir það, að eg sé meiri lambavinur nú en eg var í fyrra. Eg hefi ekkert á móti dánarvottorðum lamba og ef hann vill flytja frumv. um að skylda menn til að gefa vottorð um látin lömb og dauðamein þeirra, þá skal eg ljá því frv. atkvæði mitt. Ef sýslumönnum væri lögð sú skylda á herðar og hann yrði sýslumaður í Dalasýslu, þá fengi hann ánægjuna af því að skrifa með eiginni hendi dánarvottorð lamba í allri Dalasýslu. Það væri sjálfsagt ágætt. En þar sem hann sagði fullum fetum, að hann væri eins kunnugur í Dalasýslu og eg, þá held eg að það hafi verið heldur mikið sagt. Eg hygg, að hann sé kunnugastur í Akureyjum og Heinabergi, þar sem Akureyingar lentu, en um aðra hluta sýslunnar skil eg ekki, að honum sé til nokkurs hlutar að bera sína þekkingu saman við mína. Eg þori óhræddur að þreyta það mál við hann. Um það, hvað örninn var góður við lömbin þegar hann var barn, skal eg láta ósagt, því að þá vóru ekki gefin dánarvottorð um lömb fremur en nú.

Eg hefi átt tal við Magnús bónda í Staðarfelli og hann hefir sagt mér, að örninn hafi eyðilagt alt varp í Líney. Sömuleiðis hefir örninn eytt öllu varpi í Embrhöfða. Og ef háttv. þingmaður er jafnkunnugur á Skarðströndinni og eg, þá veit hann, að örn hefir ætíð verið í Arnardrang, sem er á móts við Akurey. (Guðmundur Eggerz: Sá örn er nú dauður). Þegar Pétur, sonur Friðriks á Ballará, ef háttv. þingmaður (G. E.) kannast við hann, bjó í Akureyjum, þá var honum það hið mesta áhugamál að koma á vargeyðslufélagi í Breiðafirði og bauð hæst fé af öllum til höfuðs erninum. Hann hafði einhverja nasasjón af því, að örninn væri skaðræðisdýr.

Það kann að vera, að háttv. þm. (G. E.) vilji halda sér við atkvæði sitt í fyrra, og fæst eg ekki um það, enda á eg hvorki ráð á samvizku hans né annarra. Eg bið einungis, að frumv. fái að ganga til nefndar. Eg er ekki að halda því fram, að þetta sé stórmál, þó að kjósendum mínum sé það áhugamál. Og þó að hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) vilji, að kjósendum mínum líki vel við mig, þá vil eg ekki kaupa það því verði, að hann beygi eða sveigi samvizku sína til þess að afla mér kjörfylgis í Dalasýslu. Eg tel okkur jafngóða vini fyrir því.