10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

113. mál, kosningar til Alþingis

Þorleifur Jónsson:

Eg ætla að minnast á breyttill., sem eg á á þgskj. 446. Eg vona, að hún sé að minsta kosti meinlaus og væri fremur til bóta en hitt, ef hún næði fram að ganga.

Það er ákveðið í 20. gr. kosningalaganna, að nöfnin skuli skráð á seðlana með skýru prentletri. Þetta hafa menn skilið svo, að ekki mætti gera þetta annarstaðar en í prentsmiðju. En þær eru, að því er eg bezt veit, ekki nema á 5 stöðum á landinu, og ærið torsótt að ná til þeirra að vetrardegi, úr sumum kjördæmum. Í mínu kjördæmi er þetta mjög erfitt, annaðhvort þarf að senda til Seyðisfjarðar eða Reykjavíkur. Báðar þessar leiðir eru mjög kostnaðarsamar og að vetrarlagi hættuferðir, mennirnir geta orðið úti og kosningin tefst.

Yfirkjörstjórnin fyrir austan hefir þó hingað til ekki þorað að láta skrá nöfnin með ritvél; en mér virðist ekki óeðlilegt að lögin leyfði slíkt. Mér hefir verið sagt, að ritvél hafi verið notuð í Vestmannaeyjum árið 1908, en mér þykir mikið efamál, hvort alþingi getur ekki ónýtt slíka kosningu.

Það getur víðar verið erfitt en í Skaftafellssýslu að ná í prentsmiðju, ekki sízt ef kosningar færi fram að vetrarlagi. Þess vegna hefi eg komið fram með þessa tillögu, og eg held að í henni felist töluverð réttarbót. Eg sé ekki ástæðu til að vera hræddur við, að klessur eða göt komi á seðlana, eins og háttv. framsögm. (E. A.) var að tala um og þó svo væri að einhverjir fáir seðlar ónýttist ætti að senda svo mikið í kjördæmin af seðlum, að óhætt væri þó einhverjir gengi frá. Eg vil því mælast til að háttv. deild samþykki þessa viðbót mína. Eg sé ekki, að hún geti orðið skaðleg og fulltrygt eftirlit er hægt að hafa með kosningunni, þó að hún sé samþykt.

Annað atriði er í þessari grein, sem eg vildi minnast á, og það er brotið á seðlunum. Mér skilst að meiningin með lögunum sé sú, að seðlarnir sé einbrotnir. En nú hefir það komið fyrir, að seðlarnir hafa komið tvíbrotnir frá prentsmiðjunum. Eg veit ekki, hvort þetta er alstaðar á landinu. En eitthvert ákvæði þarf um þetta að vera, svo að sumir láti ekki tvíbrjóta en aðrir einbrjóta seðlana. Það hefir komið fyrir, að kosning hefir verið ónýtt vegna þess, hvernig seðlar hafa verið brotnir, og það getur komið fyrir enn.

Eg veit ekki, hvort eg á að fara að minnast á þær breytingartillögur, viðaukatillögur, varatillögur og þrautavaratillögur, sem hér liggja fyrir. Sumar hafa verið teknar aftur. Eg vildi að eins geta þess í sambandi við það, sem farið er fram á í einni þeirra, að einu kjördæmi sé kipt burtu, þá getur varla skilist öðru vísi atkvæðagreiðslan í fyrradag, um að fella 7. gr. frumv., en að deildin vildi enga breytingu gera á kjördæmaskipuninni. Kjördæmin eru flest ævagömul og bundin við takmörk sýslnanna. Og var því að vonum að kjördæmaskiftingin, eins og hún var í stjórnarfrumv. fengi ekki góðan byr, þar sem einnig var svo langt gengið, að búta átti í sundur sum gömlu kjördæmin, og fara með þau eins og útkastað hræ.

Það hefir mikið verið talað um það, að Reykjavík yrði fyrir miklum misrétti, þar sem mörg þúsund kjósendur hér réði minna en fá hundruð annarstaðar á landinu. Það er fyrir sérstök atvik, að þetta er orðið svo. Reykjavík hefir þotið upp á fáum árum. Fólksfjöldinn hér stafar ekki svo mikið af því, sem upp veg í bænum, heldur af því að fólkið nú sem stendur streymir hingað utan af landinu. Nú veit enginn hvað þessi fólksstraumur helzt lengi hingað. Skeð getur að einhver atvik valdi því, að fólkið fari að streyma meira til annara staða á landinu, og ætti þá að hringla kjördæmaskipun eftir því, hringla með kjördæmin, eftir þessum eilífu fólksflutningum.

Í raun og veru er margbúið að taka það fram, að misréttið er ekki svo mikið í sjálfu sér. Hér á þingi sitja ærið margir þingmenn, sem búsettir eru í bænum. Borgarar bæjarins geta legið í eyrum þingmannanna og »agiterað« í þeim, um hvað sem þá lystir og er ekki nein skömm að því í sjálfu sér. Enda hefir það líka sýnt sig, að mönnum hér í Reykjavík hefir ekki orðið lakast til að fá bitlinga af öllum mönnum á landinu. Þingið hefir sýnt þeim góðvilja sinn eða réttlæti, eða hvað eg á að kalla það, ekki síður en öðrum. Bitlingamennirnir eru fæstir úti í sveitum landsins, þeir eru flestir hér, þó bærinn hafi ekki nema 2 þingmenn.

Eg er ekki að ásaka neinn fyrir þetta, en finst að á hitt megi líta, að Reykvíkingar geti gert sig nokkurn veginn ánægða, hvað mál þeirra snertir yfir höfuð.

Svo er annað atriði. Kjósendur höfuðstaðarins eiga ólíku hægra aðstöðu til að ráðgast við þingmenn sína, heldur en menn út um land, í fámenni og strjálbygð, þar sem 6–7 dagleiðir geta verið um kjördæmið að vetrarlagi, ekki sízt ef nýja kjördæmaskiftingin kæmist á. Þar er ekki kostur að ræða mál sín saman nema örsjaldan, ef til vill að eins einu sinni á ári, og þess vegna ekki greitt um samvinnu milli þingmanna og kjósenda, þar sem svo stendur á.

Hér í Reykjavík er samvinnan hins vegar svo auðveld, sem mest má verða fyrir kjósendur, bæði við þeirra eigin þingmenn og alla aðra þingmenn, sem þeir geta fundið og skýrt frá áhugamálum sínum.

Mér finst, að það komi yfir höfuð ekki svo þungt niður á Reykvíkingum, þeir þótt hafi ekki fleiri þingm. en þetta. Þó skal eg játa, að brtill. á þgskj. 451, um að fjölga þingmönnum um tvo, og Reykjavík fái þessa tvo í viðbót, mundi verða ágætt ráð til að friða kjósendur hér, ef það næði fram að ganga, og eins þyrfti þá ekki að deila um kjördæmaskiftinguna að öðru leyti.

Eg tel sennilegt, að ekki liði á löngu áður en breytt verði á þessa leið. En þetta er nú fyrst komið fram í þinglok og mér finst ekki sem bezt við eigandi að ætla nú að reka þetta af í rykk. Mér finst að maður verði að fá tíma til að átta sig og þetta verði að bíða að minsta kosti til næsta þings, svo að eg get ekki að þessu sinni greitt atkvæði með því, þó að það sé að vísu tiltækilegt til friðar.