25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

34. mál, friðun fugla og eggja

Sigurður Sigurðsson:

Áður en gengið er til atkvæða í þessu máli, get eg ekki stilt mig um að láta þess getið, að eg tel verr farið, ef þetta frumv. nær fram að ganga, sem þó eru allar líkur til að það geri. Það er ekki vegna þess að frumv. fari fram á að breyta nýjum lögum, og ekki heldur vegna þess, að eg álíti það stórmál, sem hér er um að ræða. Eg hygg, að allir líti svo á, að þetta mál sé ekki mikils umvarðandi og megi teljast smámál, en það er samt sem áður ekki eins lítils virði og sumir virðast álíta, í fljótu bragði.

Í lögunum um friðun fugla og eggja, sem samþykt vóru hér á þinginu í fyrra, var svo ákveðið, að örninn skyldi vera friðaður næstu 5 árin. Ástæðan var sú, að nefndin sem fjallaði um málið, þóttist fá fullar sannanir fyrir því, að mjög lítið væri orðið um þennan fugl hér á landi. Hluturinn er líka sá, að honum fækkar stórlega ár frá ári. Einhvern heyrði eg segja, að ekki myndi vera meira eftir af honum en ein 7–8 pör. En jafnvel þótt þessi fugl teljist til rándýra, þá hygg eg þó, að einhverir geti orðið mér samdóma um, að það væri mikill missir fyrir náttúru landsins ef honum væri algerlega útrýmt, sem allar horfur eru á, ef honum verður engin vægð sýnd. Dýraríki landsins er ekki svo fjölskrúðugt, að það megi við því, að þeim fáu tegundum fækki, sem hér hafa tekið sér bólfestu. Vér hörmum það mikið, að geirfuglinn skuli vera horfinn og vér mundum líka harma það, ef erninum yrði útrýmt með öllu. Það eru reyndar til sögur um það, að örninn hafi stundum gert talsvert tjón, en síðan honum hefir fækkað hefi eg ekki heyrt mjög mikið um það talað, að hann hafi gert skaða, hvorki í varplöndum né á skepnum. Aftur á móti eru aðrir fuglar, sem talsverðan skaða gera bæði fénaði, sérstaklega unglömbum, og eggvarpi. Má þar tilnefna bæði hrafninn og svartbakinn.

Af þessarri ástæðu, að eg tel hættu á, að erninum verði útrýmt með öllu, ef ekkert verður gert til þess að halda honum við, verð eg að vera á móti frv. og óska, að það verði felt. Þegar flutningsm. þessa frv. (B. J.) mælti með því við 1. umr., þá gat hann þess, að hann flytti það eftir óskum kjósenda sinna í Dalasýslu. En að öðru leyti minnist eg ekki, að hann hafi fært neinar ástæður fyrir máli sínu, né að hann hafi getið um, hvað kjósendur hans hafi haft fyrir sér, er þeir óskuðu, að örninn yrði aftur ófriðaður. Eg skal svo ekki hafa fleiri orð um málið. Eg játa, að þetta er ekkert stórmál, en samt sem áður legg eg nokkra áherzlu á, að frumv. verði ekki samþykt, því að eg tel verr farið, ef örninn hyrfi alveg úr landinu, sem allar horfur eru á, ef þetta frumv. nær fram að ganga.