25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

34. mál, friðun fugla og eggja

Matthías Ólafsson:

Eg man ekki betur, en að háttv. þm. Dal. (B. J.) hafi greitt atkv. með friðun arnarins í fyrra. (Bjarni Jónsson: Má eg leiðrétta þetta undireins. Eg greiddi hvorki atkvæði með né móti fuglafriðunarfrumv., því að eg var ekki viðstaddur þegar atkv.greiðslan fór fram). Þetta kann að vera satt. En honum hefir þá að minsta kosti ekki verið mikið áhugamál að koma í veg fyrir friðun arnarins, úr því að hann var ekki viðstaddur atkv.greiðsluna. Honum hefir hlotið að vera eins kunnugt um það þá eins og nú, að það gæti komið fyrir, að örninn banaði lömbum. Mér er ekki kunnugt um, hvað mikil brögð hafa verið að lambadrápi arnarins í Dalasýslu, en eg hygg, að þótt frézt hefði, að nokkur lömb hefði fallið fyrir honum í einhverri annarri sýslu, þá hefði háttv. þm. Dal. (B. J.) varla rokið til að flytja frv. um að ófriða örninn. Eg geri ekki mikið úr því, að örninn hafi drepið lömb í Dalasýslu í vor. Þau munu hafa drepist af öðrum ástæðum. En um það vilja menn ekki tala. Ef hér væri sjónarvottar sem segði mér frá, þá mundi eg trúa, en fyrr geri eg það ekki.

Hér á landi er orðið sáralítið um erni, svo lítið, að margir þingmenn hér í salnum hafa aldrei á æfi sinni séð örn. Dalasýsla hlýtur því að vera mikil undantekning. Eg verð að telja það rangt að útrýma erninum, jafndýrlegum fugli og jafnsaklausum og hann er í rauninni.

Það var sagt hér áðan, að ekki mundi vera eftir í landinu nema 7–8 pör af þessum fugli, og má hann því ekki við miklu drápi. Og ef þeir eiga að geta gert mikinn skaða í Dalasýslu, þá hljóta þeir að vera þar allir samansafnaðir. Get eg ekki að því gert, að mér finst það harla ótrúlegt. Það væri alveg ófyrirgefanlegt hverflyndi af þinginu, ef það færi nú að samþykkja þetta frumv., alveg þvert ofan í það, sem það samþykti í fyrra.

Mér finst það líka ófyrirgefanleg harðneskja að vilja gereyða erninum, þó að það kunni einstöku sinnum að koma fyrir, að hann gripi lamb og lamb, þegar hann eða ungar hans eru komnir að bana úr hungri. Má minna á í þessu sambandi kvæðið um Torfa og tóu:

»Til hvers ertu Torfi minn

tóunni að blóta« o. s. frv.

Veit eg, að háttv. þm. Dal. (B. J.) kannast við það. Ef svo langt á að fara, að gerdrepa alt það, sem einusinni hefir verið nefnt rándýr, þá fengi fátt að halda lífi í þessum heimi. Það væri athugavert, hvort ekki væri til önnur rándýr á tveimur fótum, sem skæðari væri en örninn. En þau njóta þess, að þau eru hærra sett og líkari oss. Eg mun ekki ljá því atkvæði mitt, að örninn verði ófriðaður, og set eg það ekki fyrir mig, þó að eg viti, að það getur komið fyrir, að hann grípi einstöku lamb, til þess að bjarga sér eða ungum sínum frá bráðum dauða.