25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

34. mál, friðun fugla og eggja

Jóhann Eyjólfsson:

Það er fögur og göfug hugajón, sem hefir komið fram hjá andmælendum þessa frumv., að vilja halda við sem fjölskrúðugustu dýralífi í landinu. En það er ekki nóg, að dýraríkið sé fjölskrúðugt, ef dýrin eru til ógagns eins. Þegar talað hefir verið um innflutning nýrra dýrategunda í landið, t. d. innflutning héra, þá hefir verið mælt með því vegna þess, að af mætti vænta einhverrar gagnsemdar. Og það verðum vér að hafa hugfast, þegar talað er um að viðhalda fjölskrúðugu dýraríki, að dýrin sé oss til góðs en ekki til ills. Eg hefi aldrei heyrt annað um örninn, en að hann sé ránfugl, og mér er ómögulegt að skilja, að það sé neinn Hottentotta-hugsunarháttur að vilja útrýma honum. Það er einmitt menningarinnar hugsjón, að útiloka alt það, sem er til tjóns, og það er mikilsvert, að það spor sé rétt stigið. Eða á þingið að taka þá stefnu, að friða öll rándýr, hvort sem þau eru á tveimur fótum eða fjórum?

Eg hefi nú ekki heyrt neina tillögu um að eyðileggja mannfólkið, enda er sú tegundin af tvífættu dýrunum nokkurnveginn friðuð að lögum, þó að sum þeirra sé ekki sem allra þörfust.

Það eru litlar líkur til, að örninn muni deyja út í heiminum, þó að hann yrði ekkí lengur til á Íslandi. Það er svo um sum dýr, sem hingað hafa fluzt inn í landið, að vér vildum nú óska, að svo hefði aldrei verið. Mætti t. d. nefna refinn, sem ekki er til annars en óþrifnaðar og tjóns. Eg held að oss liði vel og að vér hefðum nóga skemtun, þó að vér mistum alla þessa fugla, sem hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) taldi: erni, vali, smyrla, kjóa og hrafna, og hvað það var nú fleira. Margbreytni í dýraríkinu er því að eins góð og holl, að það sé um þau dýr að tala, sem landsmönnum sé til gagns og gleði.

Eg álít það enga ástæðu ránfuglunum til málsbóta, þó að lömbin geti farið af öðrum ástæðum, en af þeirra völdum. Þeir eru þó viðbót við alt annað. Eg hugsa, að það ætti einmitt að vera takmark vort, að koma þeim dýrum fyrir kattarnef, sem eru oss til tjóns og ama. Og eg skal bæta því við, að það er ekki til neins að semja friðunarlög fyrir dýr, sem í almenningsálitinu eru skaðleg. Þau verða drepin jafnt eftir sem áður. Þegar hrafninn sést kroppa augun úr kind, verður hann drepinn, ef því verðar við komið, hvort, sem hann er friðaður eða ekki.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vil lýsa yfir því, að eg mun greiða þessu frv. atkvæði.