25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

34. mál, friðun fugla og eggja

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Mér kemur það undarlega fyrir, að hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) leyfir sér að brigsla mér um, að eg hafi borið þetta frumv. fram eftir ósk kjósenda minna. Eg hefði alls ekki borið það fram, ef ekki hefði verið skorað á mig, en eg veit ekki betur, en að það sé sjálfsagt, að taka tillit til kjósenda sinna. Hann var að brigsla mér um, að eg hefði flutt frumvarpið af því að lömbin, sem drepin vóru, vóru úr Dalasýslu. En ef þau hefði verið úr hans kjördæmi, myndi hann hafa flutt frumvarpið og sagt, að þessi ótætis fugl ætti ekki að lifa. Þá myndi eg líka hafa greitt atkvæði með honum, því að eg skifti ekki um skoðun eftir kjördæmum.

Sami háttv. þingmaður sagðist ekki trúa því, að örninn hefði drepið nokkur lömb, og undir það tók háttv. 2. þingm. S.-Múl (G. E.) með honum og vildi fá skýrslu um lit og tölu lambanna. Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir. Þeir vita betur, Heródes og Pílatus fyrir austan og vestan, heldur en maðurinn, sem sá lambið drepið í burðarliðnum. (Guðmundur Eggerz: Hvar eru dánarskýrslurnar? Einar Arnórsson: Hann vill fá sálnaregistur). Það stendur á þessu frumvarpi um dánarvottorð lamba frá háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Ef það væri komið fram, mætti kanske setja á sig, hvað mörg lömbin vóru, og hver þeirra vóru hvít, hver svört, hver mórauð og hver golsótt eins og hann.

Eg skal ekkert þræta um það, hvað margir ernir eru hér á landi nú. Hvort þeir eru 6 eða 8 að eins, skal eg ekkert um segja. En frumvarpið fer ekki lengra en það, að ekki skuli liggja sekt við að skjóta þá, en undan þeim má ekki steypa eftir sem áður.

Háttv. þm. V.-ÍSf. (M. Ó.) sagði, að eg hefði greitt atkvæði með fuglafriðunarfrumv. í fyrra, en eg held nú, að hann muni lítið um það, hvernig eg greiddi atkvæði í fyrra. Hann kallaði það hverflyndi að fara nú að breyta þessum lögum. En eg man ekki betur, en að greidd væri atkvæði með nafnakalli um þetta frumv. fyrir nokkrum dögum, og kallar hann það þá ekki hverflyndi, að greiða öðruvís atkvæði nú heldur en í fyrradag? Það er þó ekki meira hverflyndi að hvika frá ári til árs, heldur en frá degi til dags.

Eg hefi aldrei borið það fram sem neina aðalástæðu, að þessi fugl hafi einhverntíma verið kallaður ránfugl, heldur hefi eg flutt þetta frumv. af því, að örninn er skaðræðisgripur fyrir eignir manna.

Um eitt atriði er eg sammála háttv. þm. V.-ÍSf. (M. Ó.), og það er um þessi tvífættu rándýr, sem hann var að tala um. Er ekki örninn á tveimur fótum? Eg hefi aldrei séð örn á fjórum fótum. — Þeir vita svo mikið, þessir tveir þingmenn, sem nú eru farnir að berjast saman. Þeir vita hvað eg veit, og þykjast jafnvel vita það betur en eg sjálfur. Eg er ef til vill grannvitur, en eg veit þó það sem eg veit, og eg veit, að örninn hefir drepið lömb fyrir bændum vestur í Dalasýslu. Þingmanninum þarna að austan kom það »spanskt« fyrir, að eg skyldi vilja eyða þessum fugli, sem honum þykir svo gaman að sjá í loftinu. Hann vildi rengja mig um það, að örninn hefði drepið þessi lömb. (Guðmundur Eggerz: Eg var ekki að setja hnútur í háttv. þingmann). Nei, eg veit, að hann heldur ekki, að eg hafi etið lömbin. En þó að sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu sé glöggur unglingur, þá trúi eg betur þeim manni, sem hefir séð þetta, heldur en honum. Hann var að vitna til þess, að hann væri alinn upp í eyju á Breiðafirði og hefði aldrei heyrt þess getið, að örn hefði gert usla í varpi.

Kannske allir hinir sé sjónlausir eða vitlausir, sem hafa alist upp í Breiðafjarðareyjum.

Alt hans tal sýndi, að hann veit ekki hvað í eyjum gerist. Hann var reyndar ungur, þegar hann fór úr eyjunum, en hann var þó til vita og ára kominn, sem kallað er, og hefði átt að þekkja það. Hann þykist vita betur um þetta alt heldur en eg. En af því að hann er yngri en eg, ætti eg þó að vita meira, því að þó að hann hefði fylgt mér frá því að hann fæddist og vissi alt, sem fyrir mig hefir borið á þeim tíma, þá hefir hann enga bók um það, hvað eg hugsaði og sá áður en hann fæddist. Hann ætti þá kannske að vita það, að eg er ekki alveg ókunnugur í Akureyjum og jafnvel eina kunnugur og hann sjálfur. Hann má ómögulega halda, að hann geti talið þingmönnum trú um, að hann viti betur um hlut, sem hann hefir hvorki séð né heyrt, heldur en þeir menn, sem bæði sjá og heyra.

Eg legg ekki svo mikið upp úr þessu tali um fjölskrúðugt dýraríki. Eða ætti menn t. d. að vita, hvort ekki væri hægt að halda hér við bjarndýrum ? Það er göfugt dýr, og svo er um fleiri tegundir, eins og t. d. moskusnautið o. fl. Eg get ekki séð, að það sé rangt frá búskaparins sjónarmiði að ófriða örninn. Það er aðeins frá fegurðarinnarsjónarmiði af því að það þykir fögur sjón að sjá fljúgandi örn. En það eru fleiri dýr fögur heldur en örninn. Mér dettur í hug það sem hindin sagði við kálfinn sinn: »Gættu þín góði minn, þegar þú kemur út í skóginn; þar er ljótt dýr, sem étur þig«. Þegar kálfurinn kom svo út í skóginn, sá hann silkimjúkt gulröndótt dýr, sem honum þótti undurfallegt, og fór hann strax að leika sér við það. En endirinn á þeim leik varð sá, að dýrið drap kálfinn og át hann. Það hafa nú komið fram nokkuð skiftar skoðanir um friðun á rándýrum, en skyldi menn vilja friða tígrisdýrið af fagurfræðilegum ástæðum?

Það var einu sinni maður norður á Borðeyri, skáldmæltur og gáfaður maður, en hafði drukkið of mikið og lagðis út af á víðavangi. Kemur þá hrafn og fer að hoppa í kring um hann. Þá segir maðurinn: »Blessaður fuglinn, sendur af drotni til að gera mér lífið ánægjulegt«. Svo sofnar maðurinn, en þá tók krummi að gerast nærgöngull og fór að höggva í hann. Maðurinn vaknar við það og segir: »Helvítis hræfuglinn, sendur af djöflinum til að pína mig og kvelja«. Það geta verið skiftar skoðanir um það, hvort örninn geri meira að því að gleðja menn eða kvelja. En hvað sem því líður, vona eg, að eg lifi það, að háttv. 2. þm. S.Múl. (G. E.) skifti skoðun á erninum.

Eg vil svo biðja hæstv. forseta að ætla mér stundarkorn til þess að segja 2–3 orð allra seinast, þegar hinir eru búnir að tala. Eg ætla ekki að tefja umræðurnar meira nú, fyrr en þá að niðurlagi, ef eg þyrfti að þakka einhverjum fyrir að styðja minn málstað. Þeir hafa þegar veitt mér og máli mínu drengilegan stuðning samherjarnir, hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), og kann eg þeim góðar þakkir fyrir.