25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

34. mál, friðun fugla og eggja

Framsögum. (Bjarni Jónsson):

Það eru til setningar í hugsunarfræðinni, sem ekki má snúa við. T. d. snjór er hvítur, sykur er hvítur, ergo er sykur = snjór. Flestar ályktanir háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) eru af þessu bergi brotnar. Eg sé, að hann vill ekki hlusta á ræðu mína. Eg get þá geymt athugasemdirnar þangað til síðar.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) þótti það hugleysi af mér að bera fram frv., í samræmi við almennan héraðsvilja í kjördæmi mínu. Eg læt hvern sem vill dæma um það, hvort eg sé tvífættur héri eða ekki — en hitt er víst, að nóg er af þessum hugprúðu dýrum hér á landi, og ber frekar á þeim þegar um sjálfstæði landsins út á við er að ræða en í innanlandsmálum. En eg álít það hugprúðara að halda fast fram réttmætum kröfum síns héraðs, heldur en að taka strax til fótanna eins og hérar, þegar um það er að ræða að verjast erlendum ágangi og heimta aftur tekinn ránsfeng. Hann er reiður yfir horlömbunum, sem hann segir, að fallið hafi í Dölunum, en á hinum þræðinum neitar hann, að nokkurt lamb hafi drepist.

Þarna kemur hann upp um sjálfan sig. Þessi orð hans um horlömbin bera vitni um það, að hann hefir tekið á bringukollinum á þessum dauðu lömbum — annars gat hann ekki vitað að þau væri horuð.

Háttv. 1. þm. Árn. (Sig. Sig.) ályktaði sem svo — eg vil benda mönnum á það, það getur ef til vill ráðið atkvæðum hér — að ef ófriða skal örninn, vegna þess að hann drepi lömb, þá ætti að ófriða alla hunda, því að þeir gæti líka drepið lömb, og þá líklega alla menn, sem slátra lömbunum og eta þau. Svona ályktanir skýra svo vel málið, að rétt er að setja feitt stryk undir það.

Viðvíkjandi biblíuskýringum háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) skal eg geta þess, að eg er enginn Kristur, og Kristur var ekki frá Vogi. Kristur frá Nazaret þýðir smurlingur frá beitarhúsum, en ég veit ekki til þess, að eg hafi nokkurntíma verið smurður, þótt eg geti ekki neitað því, að eg hafi komið í mörg beitarhús. En annars var það ekki eg, sem sætti þessa fornu féndur, heldur vóru það þessi saklausu lömb vestan úr Dalasýslu, eins og segir í stökunni:

Féndur grimmir flugust á í fyrra, út af hvölum. En í sumar sættu þá saklaus lömb úr Dölum.