25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

34. mál, friðun fugla og eggja

Guðm. Hannesson:

Háttv. þm. Mýr. (J. E.) kvað það hugsjón menningarinnar að útrýma öllum dýrum, sem þjóðinni væri til fjármunalegrar bölvunar.

Hugsjónir menningarinnar fara eftir því, á hverju stigi menningin er. Lægsta stigið er að drepa alt og éta, sem tönn á festir — hæsta, að meta mjög mikils það, sem prýðir og hefir verulegt fegurðargildi.

Um frv. þetta er það skemst að segja, að það er til ills eins, og sjálfsagt að fella það. Svo mun vera sem háttv. þm. Mýr. (J. E.) segir, að örninn muni drepinn, ef hann gerir tilfinnanlegan skaða, hvað sem lögin segja. Frv. er því óþarft. En skaða gerir það að því leyti, að nú eru ernir skotnir til þess að troða belgina út og selja. Það er ilt verk og óþarft, því að enginn mun efast um, að þessi fallegi fugl er að deyja út hér á landi.