10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

113. mál, kosningar til Alþingis

Matthías Ólafsson:

Það er ekki gustuk, að lengja umræðurnar, af því að nú er orðið áliðið. En eg vil gera grein fyrir, hver afstaða meiri hluta nefndarinnar var gagnvart minnihlutanum.

Eg verð að halda því fram, að fyrst Reykjavík hefir nú beðið svo lengi, þá geti hún beðið enn stundarkorn þangað til þjóðin hefir látið uppi álit sitt. Ef nokkurt mál varðar þjóðina, þá er það það, hversu margir fulltrúar hennar sé og hvernig þeim verði skipað, hvort hún vilji fjölga þeim eða ekki hrófla við hinu gamla fyrirkomulagi. Það getur vel verið, að þjóðin vilji láta Reykvíkinga hafa fulltrúa að tiltölu við kjósandafjölda, og þá líklega 6, en ekki 4.

Út af því, sem háttv. 2. þm. Rvk. (J. M ) sagði, að þingfararkaup þessara tveggja fulltrúa mundi ekki nema einum bitlingi, dettur mér í hug, hvort bitlingunum kunni ekki eitthvað að fjölga einmitt við þessa viðbót fulltrúa. Er eg ekki þar með að bera Reykjavíkurþingmönnum á brýn, að þeir sé frekir í bitlinga. En ekki held eg, að hægt sé að neita því, að yfirleitt hafi Reykjavíkurþingmenn verið duglegir að ná í bitlinga.

Þess vegna mun eg aðhyllast gerðir nefndarinnar eða meiri hluta hennar. Mér skildist á háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að erfitt kynni að verða að koma prentuðum kjörseðlum austur þangað, vegna þess, hve framboðstíminn er naumur. Eg held, að þetta sé ekki hættulegt, því að innan skamms verður lagður sími austur í Skaftafellssýslu, og má þá síma þaðan nöfn frambjóðendanna. Ótækt álít eg, að hafa skrifaða seðla.