16.07.1914
Neðri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

27. mál, forðagæsla

Björn Hallsson:

Eg bað um orðið til þess að minnast á atriði, sem síðasti ræðumaður drap á o. fl. Þar sem eg er kunnugur hefir það ekki komið fyrir, að hreppsbúar hafi neitað að kjósa forðagæzlumenn, en víða gekk það aftur á móti tregt að fá menn til þess að takast. starfann á hendur, því að það er vandasamt og vanþakklátt starf. Auk þess sáu menn líka, að lögin gera ráð fyrir mikið auknum kostnaði á sveitarsjóðunum, enda þótt svo hlægilega sé komist að orði í lögunum, að skoðunarmenn skuli hafa »alt að« 2 kr. starfalaun á dag. Þetta er reyndar í fullu samræmi við það, sem tíðkanlegt er þegar verið er að tiltaka laun handa alþýðumönnum. Þá er sjálfsagt að taka alt af til sem smánarlegast boð.

Eg hefi ekki heyrt þess getið fyrr en áðan hjá háttv. flutningsmanni (E. A.), að það hafi komið fyrir, að hreppsbúar hafi neitað að kjósa forðagæzlumenn. Í sjálfu sér er það þó eðlilegt af þeim mönnum, sem eru alveg fráhverfir forðagæzlulögunum. Eg álít varhugavert að gera gangskör að því, að herða á ákvæðum þeirra sem stendur. Það er rétt að sjá, hvernig gengur að framkvæma þau, áður en farið er lengra út í sakirnar. Eg vil þó ekki beint fara að setja fótinn fyrir þetta frumv., álít rétt, að það fái að komast í nefnd, en ekki lízt mér á það. Eg held til dæmis, að það yrði ekki til að auka vinsæld laganna, ef sýslumenn þyrfti að skipa skoðunarmennina.

Eg verð að geta þess, að eg skil ekki orðalagið sumstaðar í frumv. Eg hefi aldrei heyrt talað um að »leggja af« skepnur. (Einar Arnórsson: Það er gamalt og gott mál). Eg hefi ekki heyrt það fyrr, en þar á móti er altítt að tala um að leggja þær »frá«.