27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

27. mál, forðagæsla

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Í þessu stutta nefndaráliti er gert grein fyrir flestu, sem um þetta frumv. þarf að segja. Frv. er í fullu samræmi við hin upprunalegu forðagæzlulög, en gerir þau að eina veigameiri og tryggir það betur en áður var, að þau komi að tilætluðum notum. Þannig er það með ákvæði 1. gr., um hvernig fara skuli að, ef menn kjósa ekki forðagæzlumenn. Það fyrirkomulag þótti oss hyggilegra og hagkvæmara heldur en sektir einar og kærur.

Það kostar meiri rekistefnu, en tryggir alls ekki að forðagæzlumenn sé til. Um 2. gr. frumv. er nokkuð öðru máli að gegna. Ákvæði forðagæzlulaganna gefa mjög litla trygging fyrir því að fénaður falli ekki, þrátt fyrir öll ráð forðagæzlumanns. Slíkt má hafa að engu, og hætt við að svo verði oft og alt komist í óefni. Með frv. er loku skotið fyrir þetta, að svo miklu leyti, sem gert verður með lagabókstaf einum. Líkindi eru til að fé verði, með þessu fyrirkomulagi bjargað frá felli, og lögin komi að tilætluðum notum. Það þótti samt hyggilegra, að hreppstjóri, sem frumv. veitir vald til að taka fé ábúanda og ala það á kostnað hana, gæti haft hreppsnefndaroddvita í ráðum með sér um slíkar ráðstafanir. Að þessu lýtur brtill. nefndarinnar á þskj. 203. Nefndin leit svo á, að ráðstöfunin yrði tryggari með þessu móti og fremur yrði komist hjá innansveitarskærum, sem oft mundi hætt við ella.

Þá þótti nefndinni rétt að fella burtu refsiákvæðin fyrir fóðurskort. Bar það hvorttveggja til þess, að líklegt þótti, að þau mundu lítt til framkvæmda koma, þótt þau stæði í lögunum, og svo hitt, að þau eru harla meiningarlítil ef frumvarpið verður samþykt og hreppstjóra gefið svo ríflegt vald til þess að bæta úr fóðurskorti.

Að endingu skal eg geta þess, að tillögur í sömu átt hafa komið fram á þingmálafundum, bæði sunnan lands og norðan. Vænti eg þess, að hv. deild samþykki frumvarpið með þeim breytingum, sem nefndin hefir stungið upp á.