27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

27. mál, forðagæsla

Guðmundur Eggerz:

Viðvíkjandi 2. gr. Skal eg leyfa mér að benda á það, að ekki er þar bætt neitt úr lögunum frá því í fyrra. Þar stendur svo í brtill. nefndarinnar: »Skal hreppstjóri ef unt er, o. s. frv., afla eða láta afla gegn ábyrgð sveitarsjóðs, en á kostnað búanda fóðurs handa skepnum hans, eða koma þeim í fóður annarstaðar o. s. frv.«.

Hvað oft ætli það komi nú fyrir, að hreppstjóri sjái sér fært að gera þetta? Vitanlega aldrei. Það yrði ekki þægilegt fyrir hreppstjóra, að nota þessi lög í framkvæmdinni. Hugsum oss nú, að fyrst sé skoðað fyrri part vetrar, t. d. í nóvember. Eg geri ráð fyrir, að skoðunarmenn sé gætnir og setji eina vel á og beztu bændur. Ef þetta er nú stór hreppur með 40 bæjum — þetta er nú auðvitað sett af handahófi — og þar eru svo sem 4000 fjár, þá býst eg við, að ekki sé mjög djúpt tekið í árinni, þó að gert sé ráð fyrir því, að skoðunarmenn kæmist að þeirri niðurstöðu, að fækka þyrfti fénu um 500, til þess að tryggilega sé sett á, og eins og beztu bændur mundu gert hafa. Ef nú þetta yrði svona, hlutfallslega, alstaðar eða víðast, hvað á þá að gera við þetta fé? Ekki dugir að reka það í næstu sveit, því að þar er eina ástatt, og þó að það sé rekið til Reykjavíkur, þá hefir bjargráðastjórnin ekki hey, að eins gull eða seðla. Og væri þetta að vorinu, þá rekur alveg að hinu sama. Eini útvegurinn yrði að kaupa útlent fóður.

Þá getur þetta nýja ákvæði, um að fóðurs skuli aflað gegn ábyrgð sveitarsjóðs, orðið hættulegt fyrir sveitarsjóðina, ekki sízt af því, að komi lögin nokkurntíma í framkvæmd, þá kemur þetta ákvæði einmitt slóðunum til gagns, þeim mönnum, sem alt af setja ógætilega á, og ekki taka sér nærri, þó að hreppsfélaginu blæði. En það, sem eg legg mesta áherzlu á, er það, að þetta verða aldrei annað en pappírslög, og af þeirri ástæðu mun eg ekki ljá þeim mitt atkvæði.