27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

27. mál, forðagæsla

Stefán Stefánsson:

Eg efast mjög um það, að breyt.till. nefndarinnar sé til verulegra bóta, og hvað snertir kosningu forðagæzlumanna, þá verð eg að vísu að trúa því, að fyrir hafi komið, að neitað hafi verið að kjósa. þá, en eg verð að líta svo á, að í lögunum sé nægilega skýrt ákvæði, hvað kosningu forðagæzlumannanna snertir, því að í 12. gr. segir:

»Önnur brot gegn þessum lögum, eða almennum eða sérstökum fyrirskipunum samkvæmt þeim, varða sektum frá 5 til 100 kr.

Eg álít, að kosning forðagæslumanna sé einmitt ein slík fyrirskipun, samkv. þeim lögum, sem 12. gr. talar um.

Annars vil eg skjóta því til nefndarinnar, henni til athugunar, hvort ekki sé rétt að koma með breytingu við 3. umr. þess efnis, að lögin nái eins til kaupstaða sem hreppa, því að í kaupstöðunum er þó ætíð meira eða minna af búpeningi. Að minsta kosti er ekki svo lítið af búpeningi í þeim kaupstaðnum, sem eg þekki bezt. Og því ekki að sá búpeningur njóti sömu verndar og sá sem er í sveitunum ?

Af þessu, að ekki er fóðurbirgðaskoðun í kaupstöðunum, getur það leitt, að góðsamir bændur láti svo mikið af heyi til kaupstaðanna, að þeir komist í þrot, jafnvel þótt þeir sé álitnir birgir við fyrstu skoðun, að haustinu. Mér finst

hér vera eyða í lögin, því að það er þó sannarlega meining laganna, ekki einasta að allar skepnur í landinu eigi að njóta sömu verndar, heldur líka að fyrirbyggja það, að einn bóndinn setji annan í fóðurskort fyrir skepnur sínar.