10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

113. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson) :

Eg get vel verið stuttorður, því að bæði háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) og háttv. þm. Ak. (M. Kr.) hafa tekið fram flest það, er eg hefði þurft að svara.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) talaði um brotið á seðlunum. Eg held, að svo beri að skilja fyrirmæli 20. gr., að seðlarnir eigi að vera einbrotnir, en ekki margbrotnir. Þannig voru gömlu lögin skilin alment, þótt kjósendur hafi stundum flaskað á þessu.

Háttv. samþingismaður minn (S. S.) talaði um bitlinga í þessu sambandi og sagði, að eg væri ekki alveg laus við þann faraldur að vilja stofna til nýrra bitlinga. Ef hann telur breyt.till. mína á þgskj. 451 hníga í bitlingaáttina, þá vil eg ekki bera orð hans af mér. En háttv. þm. ætti að muna það, að þegar menn vilja segja eitthvað einhverjum til lasts, þá er og réttlátast að segja, hvað sá hafi unnið sér til lofs. Þetta gerir hann ekki. Honum láist að geta þess, að einmitt eg ásamt honum og fleiri háttv. þm., bar fram frumv., sem meðal annars miðaði að því, að draga úr kostnaðinum við þinghaldið.

Ef þingskapafrv. hefði náð fram að ganga, hefði sparast á ári nokkur þúsund við það. Reyndar er þess getandi, að nú þegar verður þinghaldið talsvert ódýrara af því að frv. þetta kom fram. Bæði það, sem eg hefi sagt hér í því máli, og svo álit nefndarinnar, mun valda því. Og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) var eigi frumkvöðull þessa frumv., heldur eg.

En svo að eg víki að bitlingunum, þá er það orð mjög vafasamt hugtak, og mér þykir illa sitja á háttv. samþingismanni mínum (S. S.) að kalla þingmensku bitling. Eg held varla, að hann hafi gert sér grein fyrir því, hvað hann er að segja. Í ummælum hans hlýtur að liggja það, að þingmenn geri ekkert gagn. Afleiðingin verður þá sú, að alþingi sé alls ekki haldið framar, og að hann og skoðanabræður hans segi af sér þingmensku hið bráðasta og bjóði sig aldrei fram aftur. Þeir hljóta að telja sig og aðra þingmenn landinu til niðurdreps og fordjörfunar, meðan þeir sitja á þingi. Eg tel þar á móti bæði háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) og marga aðra að mörgu nýta menn, bæði á þingi og utan þing. Hvernig lízt mönnum á afleiðingarnar? (Sigurður Sigurðsson: Þetta er alt öfugt). Það játa eg satt vera. En eg held aðeins áfram rökréttri ályktun frá þeirri forsendu, sem þingmaðurinn lét upp í hendur mér. Forsendan var á höfðinu hjá honum, og því er eðlilegt, að ályktunin verði það líka. Eg tala aðeins frá hans sjónarmiði til þess að sýna til hvers skoðun hans leiði.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) kom með það, að sú tilhneiging að stofna til bitlinga og þess konar væri rótgrónast hjá Reykvíkingum. Þetta er alveg út í bláinn sagt. Eg ætla t. d., að allur sá ráðunauta — eða ráðagrauta-grúi, sem stofnaður hefir verið hér á þingi — og sumar þessar ráðunautastöður eru aðeins óþarfa bitlingsstöður til einkis gagna — sé minst til orðinn fyrir tilverknað Reykvíkinga, heldur alt annara manna. Annars er háttv. samþingism. minn (S. S.) sjálfur Reykvíkingur í sama skilningi sem eg, búsettur hér og fær þá ánægju að gjalda hér til allra stétta o. s. frv.

Það, sem menn eru að tala um sundrung á kjördæmunum, þá getur það ekki komið við tillögu mína á þgskj. 451. Eg fer þar ekki fram á að sundra kjördæmum, heldur að auka tveim fulltrú- um við Reykjavík. Það hefir engi haldið því fram, að Reykjavík bæri ekki þessi þingmannatala, borið saman við fólksfjölda, enda ber bænum hærri tala, ef eingöngu er lagður Sá mælikvarði til grundvallar. Ef sá mælikvarði er hafður, þá ber Reykjavík 5 þingmenn og partur úr þeim 6.

Þá kem eg að þeirri undarlegu röksemdaleiðslu háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að ekki megi fjölga þingmönnum hér í Reykjavík, vegna þess, að kjósendur dragist svo mjög hingað utan af landsbygðinni. Þingmaðurinn vill svifta menn kosningarétti fyrir það, að þeir neyta síns löghelgaða réttar til þess að flytja vistferlum. Annað eins hefi eg sjaldan heyrt. Hvers vegna fara ekki háttv. þm. fram á, að leggja á menn átthagaband eða »Stavnsbaand« og »Vornedskab«, eins og var í Danmörku fyrr á tímum, svo að menn geti ekki skift um bústaði? Það væri afleiðingin af þessari kenningu háttv. þingmanna. Þetta sýnir, hverjar ógöngur menn komast i, þegar menn leggja algjörlega öfugar forsendur til grundvallar fyrir tillögum einum.

Háttv. samþingismaður minn (S. S.) sagði, að meðferð mála hér á þingi sýndi það, að þingmenn, búsettir í Reykjavík, hugsuðu jafnvel framar um Reykjavík en sín eigin kjördæmi. Mér dettur í hug Hafnarfjarðarvegurinn; eg get hugsað, að hann snerti Reykjavík nokkuð. En hvað verður, þegar um það er að ræða, að landssjóður taki við þeim vegi? Þrír þingmenn, allir búsettir í Reykjavík, koma fram með breytingartillögu um það, að landssjóður skuli alls ekki kosta viðhald þessa vegar, og fá þeir þá tillögu fram, eigi síður með aðstoð Reykvíkinga en annara. Vorum við, háttv. samþingismaður minn og eg, flutningamenn þessarar tillögu, eins og hann man, og hv. l. þm. Húnv. (G. H.).

Sami háttv. þm. mintist á höfnina hér í Reykjavík. Eg býst við því, að fleiri þingmenn en reykvíkskir hafi verið svo skynsamir að sjá, að þar var ekki eingöngu um hagsmuni Reykjavíkur að ræða, heldur og heill alls landsins, og að þeir hafi því greitt atkvæði með höfninni.

Annara klingir oft sú bjalla við, að Reykvíkingar hafi ekkert vit á málefnum þeim, sem sveitir varða. Það er ekki langt síðan, að einn merkur utanbæjarþingmaður spurði einn þingmann hér búsettan, er þeir mæltust við um mál eitt, er aðallega varðar sveitirnar og hér lá fyrir þinginu, en er nú afgreitt sem lög frá því, aðallega fyrir tilstyrk Reykjavíkurmanns eins hér á þingi : »Hafið þið Reykvíkingar annars nokkurt vit á sveitamálefnum?« Eg hirði ekki að nefna nöfn, en satt er þetta.

Það er alger misskilningur að halda, að tillögurnar um það, að Reykjavík fái fleiri þingmenn, miði að því að efla hagsmuni bæjarins. Þær lúta að því, að hér búsettir menn fái tiltölulega jafnan politískan rétt á við aðra íbúa landsins.

En svo að eg komist inn í hreppapólitíkina, sem aldrei ætti að koma fram hér á þingi, þá vil eg geta þess, að af þeim 34 þjóðkjörnum þingmönnum, sem nú sitja á þingi, eru 20 aðallega fulltrúar sveitakjördæma, og landbúnaðar, 8 fulltrúar kjördæma með blönduðum atvinnuvegum, en aðeina 6 þingmenn, er teljast mega einvörðungu fulltrúar sjávarkjördæma. Þetta er svar við því, sem einhver var að segja um eigingirni þingmanna.

Annars veit eg ekki til þess, að menn úr sjávarhéruðum hefti framgang landbúnaðarmála hér á þingi, né heldur, að þingmenn landbúnaðarkjördæma hefti framgang þeirra mála, er sjávarútveginn varða.

Eg man ekki, hver þingmaður það var, sem sagði, að Reykjavík liði ekki neitt, þótt ekki yrði aukið við þingmönnum þar. Þetta má segja um öll kjördæmi landsins. Eg býst við, að þótt teknir væri af fámennu kjördæmunum þingmenn þeirra, þá muni þingið verða svo sanngjart, að þau eða þau bygðalög verði ekki látin gjalda þess.

Eg er ekki alveg samþykkur háttv. 1. þm. Rvíkur. Eg held, að ef tillaga mín á þgskj. 451 verður samþykt, þá muni slota þeim úlfaþyt, er verið hefir út af kjördæmaskipuninni. Eg veit, að víða munu menn ekki hafa á móti fjölgun þingmanna, eina og hér er farið fram á, af því að menn sjá sanngirni í því, en hitt er mönnum mjög sárt um, að ekki verði slengt saman kjördæmum eða slitnir hlutar frá þeim kjördæmum, sem nú eru.