13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Frams.m. (Benedikt Sveinsson):

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, að »aðalprincip« þjóðjarðasölulaganna væri það, að jörðin kæmist í hendur ábúenda. Eg get ekki annað séð, en þessu aðal-»principi« sé fullnægt með þessu frumvarpi. Hér er það einmitt ábúandinn, sem fer fram á að fá jörðina keypta. Og ekki get eg skilið það, að háttv. þingm. setji það fyrir sig, að sveitarfélagið á að fá ítak í jörðinni með góðum kjörum. Þetta er fremur útfærsla á »principinu«, en brot á því.

Þá virtist háttvirtur þingmaður vera þeirrar skoðunar, að sýslunefndirnar ætti að ráða öllu í þessum málum. Það getur verið gott og blessað, að leggja þetta undir sýslunefnd og oft koma þar auðvitað fram skynsamlegar athugasemdir, sem skylt er að hlíta. En óneitanlega virðast athugasemdirnar stundum vera svo af handahófi gerðar, að varhugavert er að gera sýslunefndirnar að hæstarétti í þessum málum.

Vér höfum einmitt dæmi þessa úr Norður-Þingeyjarsýslu. Þar hefir sýslunefnd mælt á móti sölu þriggja jarða: Presthóla, Ærlækjar og Núps — alt af þeirri ástæðu, að þær lægi vel sem læknissetur eða skólasetur og væri »vel í sveit komið«. En svo var læknissetrið sett á fjórðu jörðina. Og eina skólahúsið, sem reist hefir verið í þessum sveitum, er einmitt á gamalli þjóðjörð, sem sýslunefndin sá ekkert athugavert við að selja.

Menn sjá á þessum dæmum, hve veigamikil rök þessi muni vera. Það þýðir ekki að skírskota til ástæðna, sem einu sinni hafa verið fyrir hendi, þegar þær eru fallnar úr sögunni, nema þingm. vilji geyma þessar jarðir eins og einhvern forngrip, svo sem tíundarlögin, af því að einhverjum hafi fyrr á tímum dottið í hug að nota þær til læknisseturs eða skólajarðar. En skólajörð verður Núpur trauðlega nokkurn tíma, þar sem hann er yzt á sveitarenda.

Háttvirtur þingmaður sagði, að líklegt væri, að úrskurður sýslunefndar hefði orðið annar, ef henni hefði verið kunnugt um sveitarfundinn, sem eg nefndi áðan. En sýslunefndin vissi einmitt vilja sveitarinnar í þessu efni, því að fyrri fundurinn, sem eg gat um, var einmitt haldinn á undan sýslufundi og þar samþykt áskorun til hana um það, að mæla með sölu jarðarinnar. En þessi tregða á því, að fá samþykki Sýslunefndar, stafar víst mest frá oddvita hennar, og svo er mér skrifað af skilríkum manni úr þessari sveit, að eini maðurinn af bændum þar, sem andvígur sé sölunni, sé einmitt sýslunefndarmaðurinn þeirra.

Annars skal eg ekki fara um þetta fleiri orðum nú, vegna þess, að eg býst við, að nefnd verði kosin í málið, og gefst mér þá kostur á að skýra það nánara.