13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Sveinn Björnsson:

Eg heyrði það á ræðu háttv. þingm. N.-Þing. (B. Sv.), að við erum sammála í þjóðjarðasölumálinu. En í því greinir okkur á, að þegar frumvarp um sölu einhverrar þjóðjarðar liggur fyrir, þá drögum við mismunandi ályktanir af þessari sameiginlegu skoðun. Af því að eg er mótfallinn sölu þjóðjarða, dreg eg þá ályktun, að ekki beri að selja þessa jörð, sem hér er um að ræða, fremur en aðrar. En háttv. þingmaður N.-Þing. (B. Sv.) álítur, að það komi ekki í bága við skoðun hans á þjóðjarðasölumálinu, að hann greiði atkvæði með sölu þessarar jarðar. Aftur á móti lít eg svo á, að fyrst eg er þessarar skoðunar, þá hljóti eg að nota hvert tækifæri, sem mér gefst, til þess að hindra það, að landssjóðsjörð verði seld.

Hér er um eitt tilfelli af þessu tægi að ræða. Ef til vill mætti segja, að það væri ekki hættulegt, að láta það »slarka« í þetta skifti. En háttvirtur þingmaður gaf það í skyn, að búast mætti við fleiru af þessu tagi, og því vildi hann, að nefnd yrði skipuð »tendensinn« gægist hér fram, en hann er sá, að færa sviðið alt af meir og meir út, auka söluna. Þetta telur hv. þingmaður ekkert hættulegt, og þó er hann á sama máli og eg, að sala þjóðjarða sé skaðleg.

Það gæti auðvitað komið til mála, til þess að hindra þjóðjarðasöluna, að afnema lögin frá 1905, en það álít eg ekki rétt að svo stöddu. Eg er hræddur um, að það mæltist illa fyrir út um land, ef þau yrði nú afnumin, mönnum að óvörum. Annað mál væri það, að vér háttv. þingm. gætum komið oss saman um, að bera fram þingsályktunartillögu, þess efnis, að skora á stjórnina, að takmarka sem mest sölu þjóðjarðanna. Þegar þess er gætt, að lögin frá 1905 eru að eina heimildarlög, sem leggja stjórninni á vald, hvort jarðirnar verða seldar eða ekki, þá hlýtur hún að taka til greina áskorun þingsins um takmörkun á sölu jarðanna.

Eg er á þeirri skoðun, að þessi þjóðjarðasala sé eitt hið hættulegasta fyrir lánstraust landsins. Það var réttilega tekið fram, landinu til ágætis, í einni skýrslu, sem nýlega var prentuð, hvað það ætti mikið af fasteignum. Þær eru, og halda ætíð áfram að vera, hin eina eign þess, sem mölur og ryð fær eigi grandað, ef eg mætti svo að orði kveða. Og eftir því, sem framfarirnar aukast og meira er varið til þess, að bæta hag landsmanna, eftir því vaga þær meira í verði.

Eg veit, að því hefir verið haldið fram, til meðmæla þjóðjarðasölunni, að æskilegt sé, að bændur eigi jarðir sínar sjálfir, til þess að þeir hafi fulla hvöt til þess að bæta þær, og því hefir jafn. vel verið haldið fram, að þetta muni stemma stigu fyrir Vesturheimsferðum. En eg er eigi sannfærður um þetta; eg hygg, að vel mætti takast að fá jarðirnar fullvel setnar og gera menn ánægða að búa á þeim sem leiguliðar, ef breytt væri byggingarkjörunum á landssjóðsjörðum í heppilegra horf. Með því væri hægt að fá líka útkomu og yrði ef þeir ætti jarðirnar sjálfir, hvað bætur á þeim snertir.

Eg skal svo ekki segja meira að sinni, en eg mun nú sem oftar, er eg fæ tækifæri til þess, leggja á móti því, að meira sé gert að þessari stóru útsölu á þjóðjörðum, sem landssjóður byrjaði á 1905, og haldið hefir áfram síðan.