13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Bjarni Jónsson:

Eg vildi aðeins segja örfá orð út af skoðanamuninum milli háttv. 1. þingm. Rvk. (Sv. B.) og háttv. þingm. N. Þing. (B. Sv.) á lögunum og afleiðingum þeirra. Eg get ekki séð, að nokkur réttlátur þingmaður geti neitað þessum manni um það nú, sem áður hefir verið margleyft öðrum eftir sömu lögum. Verð eg því, þótt eg sé annars á móti þjóðjarðasölu, að gera mér það að reglu, að vera með frumvörpum eins og þessu, meðan þjóðjarðasölulögin eru í gildi. Því að hitt nær ekki nokkurri átt, að fara nú alt í einu að meina mönnum sömu hlunnindi og aðrir hafa náð, samkvæmt þessum lögum, og gera þá þannig að hlutræningjum. Á hinn bóginn tel eg það ekki meira en meðal karlmennskuverk, að kippa lögunum um sölu þjóðjarða úr gildi, ef menn vilja ekki selja jarðirnar, og til þess skal mitt atkvæði ætíð vera á reiðum höndum. En hingað til hefi eg sívalt þótzt þess fullviss, að ekki myndi tjá að freista þess, að fá þau úr gildi numin, og meðan svo stendur hefi eg ekki viljað ljá liðsinni mitt í þinginu til þess, að reka albogann í þenna og þenna mann, sem ef til vill á tífalt meiri sanngirniskröfu til þess að fá jörð sína keypta, en ýmsir aðrir, sem það hnoss hafa hlotið.

Eg fæ eigi betur séð, en að hér gildi gamla setningin: »aut est, aut non est, tertium non datur«. Annaðhvort vilja menn selja jarðirnar eða ekki. Áskorun til stjórnarinnar tel eg ekki heldur réttu leiðina, en ef háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) vill flytja frumv. þess efnis, að nema þjóðjarðasölulögin úr gildi, þá skal eg vera meðflutningsmaður að því. En þangað til mun eg greiða atkvæði með því, að þessi maður fái jörð sína keypta eina og aðrir, því að eg þekki ekki það réttlæti, að sumir menn eigi að eiga meiri rétt, en aðrir. (Jón Magnússon: Er það nú víst?). Já. — Eg kannast að vísu við menn, sem gera kröfu til þess, að eiga meiri rétt en aðrir, en eg er ekki farinn að viðurkenna þá kröfu enn þá.