13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Björn Hallsson:

Eg hefði nú reyndar getað fallið frá orðinu, því að háttv. samþingismaður minn hefir þegar tekið fram mest af því, sem eg ætlaði að segja.

Umræður hafa farið talavert út fyrir málið, sem er á dagakránni í dag, en það er eðlilegt þar sem þetta mál er um sölu á þjóðjörð, og því náskylt sölu þjóðjarða í heild sinni.

Mér datt í hug, þegar eg heyrði ræður þeirra háttv. þm., sem nú hafa tekið til máls og búsettir eru í Reykjavík, að þar skorti ekki samkomulagið. Þeir tóku allir í sama strenginn, móti þjóðjarðasölunni. Þeir hafa vafalaust talið sér það skylt, og þá er ekki nema eðlilegt þótt eg og aðrir, sem erum gagnstæðir skoðun þeirra, lýsum einnig afstöðu vorri til málsins, og verð eg þá að taka undir með háttv. samþingism. mínum (J. J.) og háttv. þm. S.-Þing (P. J.) Eg álít það mjög varhugavert að gera sýslunefndir ómyndugar í málum eins og þessu. Þetta er ekki svo að skilja, að eg sé á móti sölu þjóðjarða í sjálfu sér. Eg tel rétt að selja allar þjóðjarðir, ef ekkert er, sem sérstaklega mælir á móti, og eg get ekki sannfærst um það, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) talaði um, að þetta gæti verið skaðlegt fyrir lánstraust landsins. Það er talað um, að landið bíði eignamissi við þjóðjarðasöluna, en með aukinni ræktun þess fæ eg ekki séð, að sú skoðun hafi við mikil rök að styðjast. Vér, sem erum sveitamenn, þekkjum það, að sjálfseignarjarðir eru sem oftast betur ræktaðar og hýstar en leigujarðir. Það er svo í því sem öðru, að eigin hagsmunir ráða ekki svo litlu. Þá fyrst, er menn eiga landið sjálfir, fá þeir verulega hvöt til þess að leggja fram alla krafta sína til þess að rækta það sem bezt, en við það eykst einmitt verðgildi landsins í heild sinni, og jafnframt fær landssjóður peninga fyrir jarðirnar, sem seldar eru.

Eg býst nú við því, að nefnd verði sett í málið, og álít það líka rétt, og skal eg því ekki fara nánar út í það, að tala um söluna á þessarri einu jörð. En eins og eg hefi sagt, tel eg athugavert að ganga beint á móti tillögum sýslunefndar, en hinsvegar ekki mikið í húfi fyrir ábúanda, þótt hann verði að bíða eftir umsögn hennar næsta ár, og þá gæti eg ímyndað mér, að breyzt hafi ástæður þær, er hún hefir bygt mótmæli sín á, til þessa.