13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Sveinn Björnsson:

Eg get ekki verið á sömu skoðun og hv. þm. Dal. (B. J.) um það, að af þessarri sameiginlegu skoðun okkar á þjóðjarðasölulögunum, leiði það, að í hvert skifti, sem farið er fram á það, að landssjóður selji einhverja þjóðjörð, þá sé það sjálfsagt af þinginu, að samþykkja það, því að annars sé menn beittir misrétti. Því að eins og eg tók fram áðan, álít eg það skyldu mína, í hvert skifti sem býðst tækifæri til þess að greiða atkvæði á móti því, sem eg tel rangt, þá að gera það. En ef háttv. þm. vill, þá skal eg, hvenær sem er, vera með honum í því að leggja til að þjóðjarðasölulögin sé afnumin.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) sagði, að það kæmi ekki þessu máli við, hverja skoðun menn hefði á þjóðjarðasölunni yfirleitt. Þessu er þegar svarað. Eg álít þetta alvörumál, og mun reyna að beita mínu atkvæði til þess, að fá þessa sölu takmarkaða svo sem unt er. Sama hv. þm. leizt ekki vel á þá leið, að tela stjórninni með þingsályktunartillögu að takmarka söluna, eða hætta henni. Eg skal nú ekki fara út í það, sem hann sagði um afstöðu stjórnarinnar í því tilliti, en hitt ímynda eg mér, að stjórnin myndi telja sér skylt að taka fult tillit til slíkra tilmæla, ef þau kæmi frá þinginu.

Þá vildi eg svara háttv. þingmönnum N.-Múl. (J. J. og B. H.) nokkrum orðum. Þeir eru á gagnstæðri skoðun mér um þjóðjarðasöluna. Háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.) þótti það fljótfærnislegt, að fara að afnema þessi lög, áður en þau yrði reynd. Þetta er misskilningur á minni skoðun. Eg held því fram, að það hafi verið fljótfærni, að semja þessi lög, en hitt ekki, að afnema þau. Eg legg ekki eins mikið upp úr reynslunni á því, hvernig jarðirnar verða setnar, eftir að þær eru seldar eins og háttv. þm., því að eg byggi skoðun mína á því, að landssjóður eigi að halda í þær án tillits til þess, enda hér um óábyggilega reynslu að ræða. Það hlýtur að vera unt að hugsa sér þau ábúðarkjör, er geri menn svo ánægða, að jarðirnar verði alveg eins vel setnar og ef menn ætti þær sjálfir. Háttv. þm. hélt, að reynslan myndi sýna það, að jarðirnar yrði betur setnar eftir að þær hefði verið seldar einstökum mönnum. Eg vil aftur á móti ná því takmarki, að auka ræktun jarðanna, sem eg tel eins nauðsynlegt og hann, með öðru en því, að selja jarðirnar úr hendi landssjóðs. Og nú vil eg leggja eina spurningu fyrir þessa háttv. þm. Þeir leggja mikið upp úr sjálfsábúðinni, en mér er spurn: Hvaða trygging er fyrir því, að þessar seldu þjóðjarðir haldi áfram að vera í sjálfsábúð ? Hvenær hafa ábúendur þeirra skuldbundið sig til þess, að búa á þeim alla æfi, og svo erfingjar þeirra eftir þá? Aldrei. Það er engin trygging fyrir því, þótt eg fái keypta landsjóðsjörð í dag, að eg selji hana ekki og gerist leiguliði þegar á morgun.

Þá gætti og misskilnings hjá sömu hv. þm. á því, sem eg sagði um lánstraustið. Eg sagði og segi enn, að ef landssjóður sem slíkur vill og þarf á verulegu lánstrausti að halda, þá á hann að halda í jarðirnar. Auðvitað hjálpar það til að auka lánstraust landsins, ef framfarir eru í landinu, en það út af fyrir sig þarf þó eigi að vera einhlítt. Eini fasti og góði grundvöllurinn, sem landssjóður hefir til þess að byggja á, er fasteignirnar. Hvernig sem alt veltist, jafnvel þótt svo mikið gull fyndist, að það yrði ekki dýrara en járn eða steinar, þá eru þó jarðirnar í sínu gildi, og má jafnvel búast við, að þær hækki í verði. Þess vegna á að leggja sem mesta alúð við þá eign og ekki láta hana af hendi.