13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Eggert Pálsson:

Þetta litla frv., sem hér er á dagskrá, hefir orðið til þess, að umræðurnar hafa aðallega snúist að þjóðjarðasölu yfirleitt. Eg skal ekkert um það segja, hvar eg muni koma til að standa í þessu máli, um sölu þeirrar sérstöku jarðar, sem hér er um að ræða, en býst við að hvorirtveggja, þeir sem vilja selja og þeir sem ekki vilja selja, hafi talsverð rök fyrir sínu máli, sem síðar mun gefast tækifæri til að meta hvor sterkari sé. En úr því að hér er rætt um þjóðjarðasölu yfir höfuð, þá vildi eg mega leggja fáein orð í belg, og get þá byrjað með því að lýsa yfir því strax, að eg hefi hingað til fylt og fylli enn flokk þeirra manna, sem vilja gefa ábúendum kost á þjóðjörðum til kaups fyrir hæfilegt og sanngjarnt verð, en ekki þeirra, sem vilja halda þeim föstum fyrir þeim.

Eins og hæstv. ráðherra (H. H) tók fram, er það svo sem ekkert nýtt, að þjóðjarðir sé seldar. Því verður engan veginn haldið fram, að sala á þeim hafi fyrst byrjað með þjóðjarðasölulögunum. Á hverju þingi áður en þjóðjarðasölulögin urðu til, var borinn fram aragrúi af frumv. um sölu á einni og einni þjóðjörð, og tók það mjög mikinn tíma fyrir þinginu að fjalla um öll þau mörgu frv. og auk þess, sem tryggingin fyrir því, að salan væri miðuð við hæfilegt verð, var þá mikla minni á meðan þingið var eitt um hituna að selja. Eg verð því að álíta, að með lögunum frá 1905 hafi verið stigið stórt framfaraspor, en ekki afturfararspor í þessu tilliti. Eg verð að álíta, að nú sé miklu meiri trygging fyrir því, að verðið í hverju einstöku tilfelli sé hæfilegt, heldur en á meðan þingið var eitt um að ákveða það.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) sagði, vil eg geta þess, að eg álít landssjóði sáralítinn hag að eiga þessar jarðir óseldar. Landsreikningarnir bera það árlega með sér, að tekjurnar af þessum jörðum eru — að kostnaði frá dregnum — sáralitlar. Og eg verð að segja, að mér er það með öllu óskiljanlegt, að lánstraust landssjóðs muni geta beðið nokkurn hnekki af því, þótt jarðir þessar sé seldar.

Eg hygg, að hitt mundi fremur auka lánstraust landsins, ef þjóðjarðasalan gæti orðið til þess, að búnaður í landinu batnaði, og mér dylst það ekki, að það muni fremur en hitt stuðla að því, ef jarðirnar komast fyrir söluna í sjálfsábúð. Auk þess mætti benda á það, að peningarnir, sem inn koma fyrir þjóðjarðirnar, þegar þær eru seldar, eru, sé verðið á annað borð hæfilegt, eina mikils virði í augum útlendinga, sem vildi lána landinu peninga, eins og jarðirnar sjálfar. (Sveinn Björnsson: Það er langt frá því). Eg get ekki séð, hversvegna þeir eru það ekki, svo framarlega sem þeir eru ekki gerðir að eyðslufé og vextir þeirra nema jafnmikilli eða meiri upphæð en eftirgjald jarðarinnar er.

Hvað það snertir, að tryggingin sé ekki mikil fyrir því, að jarðirnar haldi áfram að vera í sjálfsábúð, lengi eftir að þær eru seldar, þá vil eg segja, að þótt það sé raunar rétt, að föst trygging sé ekki fyrir því, þá finst mér næsta ólíklegt, og kemur vafalaust í reyndinni sjaldan fyrir, að nokkur fleygi frá sér jörð, sem hann hefir fengið með jafngóðum skilmálum og þjóðjarðir eru seldar með, þeim skilmálum sem sé, að borga mestan hluta höfuðstóls ásamt vöxtum, með aðeins 6% á 28 árum. En þeim réttindum er vitanlega samkvæmt þjóðjarðasölulögunum fyrirgjört, ef jörðin gengur á þeim tíma úr sjálfsábúð. En takist kaupanda eða ábúanda að hafa eignarhald á jörðinni í 28 ár, eða á meðan hann er að borga hana út, þá eru ekki miklar líkur fyrir, að hann eða erfingjar hans muni kasta jörðinni frá sér með allri þeirri vinnu og umbótum, sem á þeim tíma hefir verið í hana lagt. Því þá kemur ræktin og trygðin til skjalanna. Og flestir eru svo gerðir, sem betur fer, að þeir eru fastheldnir á það, sem forfeðurnir hafa átt eða með erfiðismunum eignaat og lagt vinnu sína í og vilja ógjarnan lóga því eða farga.

Eg vil svo að síðustu benda þeim mönnum, sem nú vilja afnema þjóðjarðasölulögin, á það, að þeir taka alls ekki fyrir alla þjóðjarðasölu, þótt þeir fái þeim vilja sínum framgengt, heldur opna þeir aðeins að nýju sama veginn og áður átti sér stað, þann sem sé, að þingið selji jarðirnar með sérstökum lögum, að því er hverja sérstaka jörð snertir, og getur mér enganveginn virzt að sú breyting mundi horfa til bóta.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta nú, og tel enga þörf að lýsa yfir að svo stöddu afstöðu minni gagnvart því frv., sem nú liggur hér sérstaklega fyrir; til þess gefst, eins og eg tók fram, sennilega bæði tími og tækifæri seinna, með því að gera má að minsta kosti ráð fyrir að málið verði sett í nefnd.