13.07.1914
Neðri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Eg ætla engan þátt að eiga í umræðunum um þjóðjarðasölulögin yfir höfuð, þótt margir háttv. þm. hafi nú heldur en ekki leyst frá skjóðunni um þau. Þær koma ekki vitund þessu máli við. Hér er einungis um það að ræða, hvort þessi lög, sem í gildi eru, skuli ná jafnt til allra eða ekki.

Umræður um »spekulationir« í þessu sambandi, eru svo ástæðulausar, sem mest má verða. Bóndinn sem nú býr á Núpi er enginn flysjungur. Hann og faðir hans hafa búið þar samfleytt í 60 ár, og eg sé enga hættu á að hann fari að hlaupa þaðan burtu þótt hann eignist jörðina. Forfeður hans í karllegg hafa allir búið í þessu bygðarlagi mann fram af manni, alt frá Finnboga lögmanni Jónssyni í Ási, á 15. öld. Það er því ekki um neinn »útlending« eða »aðskotadýr« að ræða, sem sé að krækja í jörðina. Hér virðist mér aðeins um það eitt að ræða, hvort þingið eða sýslunefnd eigi að geta skorið úr til fullnustu, hvort selja megi jörðina.

Eg get ekki betur séð, en að þingið sé skyldugt til að sjá um, að réttur manna sé ekki borinn fyrir borð, og mér finst, að í þessu máli sé mikið takandi til greina, að hér liggur fyrir beiðni frá heilu sveitarfélagi, en ekki einungis einum einstökum bónda. Mér finst að þessi atriði sé þannig löguð, að nefnd sé sjálfsagt að skipa í málið að þessari umræðu lokinni.