10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

113. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Sigurðsson:

Þó að eg hafi mörgu að svara, skal eg reyna að vera stuttorður, enda er margt af því sem sagt hefir verið, ekki annað en útúrsnúningur og rangfærslur á orðum mínum og annarra andmælenda.

Háttv. 1. þm. Rvíkinga (Sv. B.) byrjaði sína hógværu, en þungorðu ræðu á því, að öll andmæli okkar kæmi af því, að við skildum ekki hvað um væri að ræða. Það má nú vel vera, að við séum ekki eins skilningskýrir og hann. En þetta minnir mig á það, sem oft vill verða um þessa svo kölluðu lærðu menn, sem gengið hafa gegn um mentastofnanir vorar, einkum æðri skólana og fengið þann stimpil að heita »lærðir«. Þá halda þeir að engir hafi vit á neinu nema þeir. Hann sagði, að það sem við héldum fram, væri ranglæti, og að við vildum ekki taka burt þann stein, sem væri í vegi fyrir því, að Rvíkingar nyti sama réttar og aðrir. Það má nú altaf deila um það, hvort hér sé um nokkurt misrétti að ræða gagnvart Rvík. Verið getur að það megi koma því svo fyrir á pappírnum reikningslega, að það sýnist svo, en eg hefi sýnt fram á það, að í raun og veru er því ekki þann veg varið.

Kynleg þótti mér sú ástæða hjá háttvirtum þm. fyrir því að hér væri um ranglæti að ræða, að Rvíkingar gyldi tiltölulega meira í landssjóð en aðrir, jafnvel fjórða hvern eyri. Þetta er nú í 3. eða 4. sinn, sem eg hefi heyrt þessum herfilega misskilning haldið fram. Halda þá þessir menn, að það sem gelst frá verzlunum í Rvík í landssjóðinn, sé alt úr vasa Reykvíkinga sjálfra? Eru það þá ekki fleiri en Rvíkingar, sem verzla hér ? Eða eru það ekki fleiri en Reykvíkingar, sem draga fiskinn úr sjónum, sem hér er verkaður og lagður inn? Það er ekki nokkurt vit í því að tileinka Rvík alt það, sem hér gelzt í landssjóð.

Þá vildi háttv. þm. gera gaman að því, er eg sagði að þessir tveir þm. myndi ekki auka sérlega mikið vit eða þekkingu á þinginu. Þetta var nú sagt svona alment; en það má vera að þeir yrði ekki mikið heimskari en við hinir. (Sveinn Björnsson : Heyr! ) En úr því að háttv. þm. (Sv. B.) segir heyr, þá get eg gjarna mint hann á, að það er almenn skoðun uppeldisfræðinga og ýmsra fleiri mætra manna, er til þeirra mála þekkja, að þeir sem alast upp í kaupstöðum sé upp og ofan og að jafnaði heimskari en hinir, sem alast upp í sveitunum.

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) reiknaði það út, að þessir tveir þm. mundu kosta landssjóð eitthvað 500 kr. á ári og háttv. 1. þm. Rvíkinga tók í sama streng. Ef þing stendur nú í 75 daga, eins og í fyrra, þá kostar hvor þeirra 1200 kr., auk alls kostnaðar, sem myndi leiða af skrafi þeirra og þeim bitlingum, sem þeir kynni að koma í gegn, sem sjálfsagt yrði ekki færri fyrir það, ef Rvík fengi 4 þm.

Þá var háttv. Samþingismaður minn (E. A.) heldur en ekki gamansamur út af því, sem eg hafði sagt, og sneri því öllu öfugt. Hann dró þá ályktun út af því; að við vildum ekki fjölga þingm., að þá ættum við, sem mælum á móti fjölgun þingmanna, heldur ekki að bjóða okkur fram sjálfir. Skýzt þótt skýrir sé. Eg skil ekki þessa rökfærslu. Þetta er að snúa út úr og færa á verra veg, það sem sagt hefir verið. Hitt gæti eg skilið, að honum kæmi vel að sumir af okkar vildu draga sig til baka við næstu kosningar. En vel mætti eg muna honum það gott, sem hann hefir lagt til þess að spara fé landsins, og þakklátur er eg honum fyrir breyt.till. hans við þingsköpin, þótt ekki yrði gagn að því sem skyldi, þar sem málinu var í efri deild vísað til stjórnarinnar. En nú vona eg, að hún athugi það mál, svo að það verði tekið til meðferðar á næsta þingi.

Sami háttv. þm. gat þess, að þessi krafa um tvö ný þingsæti í Reykjavík, væri eðlileg, af því að hún bygðist á því, að Reykvíkingar ætti að fá hlutfallslega sömu áhrif og aðrir á pólitíkina í landinu. En hverir hafa meiri áhrif á hana en þeir? Hverjir ráða pólitísku straumunum í landinu, ef ekki Reykvíkingar? Það þarf ekki að bæta við Reykjavík nýjum þm. til þess, því að hér eru öll aðalblöðin og hér eru stjórnir flokkanna, sem ráða stefnunni í pólitíkinni um alt land, »og gera fólkið vitlaust«, er hvíslað að baki mér. Og svo hefi eg ekki heyrt eina einustu ósk héðan úr Reykjavík um þessa fjölgun. Þetta er bara kosningaflesk handa kjóaendunum hér í bænum fyrir næstu kosningar.

Eg þakka háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) fyrir lofsyrðin, þar sem hann sagði, að eg hefði verið duglegur fyrir mitt kjördæmi, það er að segja, ef hann hefir þá meint þau alvarlega. En má eg spyrja; hvar kemur sá dugnaður fram? Eg veit ekki betur, en að hvert einasta frv., Sem við, eg og háttv. samþingismaður minn, höfum flutt fyrir kjördæmi okkar á þessu þingi, hafi verið steindrepið. Og að því hafa Reykvíkingarnir einna bezt stutt, því að þeim er í nöp við austursýslurnar og vilja skóinn ofan af þeim í hvívetna. Það er annað, en þegar þeir þurfa á okkur að halda, til að koma fram sínum áhugamálum.

Það er ekki af kala til Reykjavíkur, að eg er mótfallinn fjölgun þingmanna í Reykjavík og öðrum kaupstöðum, heldur er það, eins og sumir menn segja, sem kunna sig, af »principi«. Eg tel það varhugavert, að hlaða undir kaupstaðina, og auka völd þeirra, á kostnað sveitahéraðanna, og það er af þeirri ástæðu, að eg hefi barist á móti þessu máli hingað til, og mun gera það framv.