07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

39. mál, sala á jörðinni Núpi í Öxarfirði

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Eg býst ekki við að eg þurfi að vera langorður, því að í nefndarálitinu er tekið fram alt, sem eg hefi að segja. Það er áhugamál ábúanda að fá jörðina keypta, því að þá fyrst sæi hann sér fært að kosta til umbóta á henni, sem hann hefir hug á. Eins er það áhugamál sveitarbænda, að jörðin verði seld honum og hafa þeir samþykt áskoranir um það fund eftir fund, fyrst til sýslunefndar og síðan til þingsins. Mér finst því harla ótilhlýðilegt, ef þingið verður ekki við þessarri meinlausu beiðni. Sýslunefndin hefir haft það á móti sölunni, að jörðinni sé svo »vel í sveit komið«, að hún ætti að vera til almenningsnota, og hafi verið vilji margra, að hún yrði læknissetur. En þessi ástæða er úrelt eins og áður er skýrt frá, því að nú er læknissetrið reist á öðrum stað, Kópaskeri. Þar er kauptún og þar verður sett símastöð að ári, og engar líkur til þess, að læknissetrið verði flutt þaðan aftur. Ef svo væri ekki, og nokkrar líkur væri til, að þessi jörð yrði læknissetur, þá myndi eg ekki hafa farið fram á að hún yrði seld, svo fremi, að salan kæmi í bága við setu læknisins þar. En eins og nú er komið er engin ástæða til annara en að líta á vilja búandans og sveitarmanna. Þetta frumvarp hefir þegar verið rætt dálítið, og eg vona að háttv. deild sé það ljóst, að það eigi fram að ganga.