03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

87. mál, friðun á laxi

Eggert Pálsson:

Eins og háttv. deildarmenn að líkindum vita er eg meiri hluta nefndarinnar fylgjandi í þessu máli, þar sem hann leggur til að sýslunefnd Árnessýslu sé heimilað að setja reglur um laxveiði í Hvítá og Ölfusá, innan þeirra takmarka sem laxfriðunarlögin setja að öðru leyti. Mér virðist þetta ofureinfalt mál, og verð að líta svo á, að þeir sem heimili eiga á hverjum einstökum stað, hljóti að vita bezt hvað þar á við í þessu efni. Eg get skilið, að háttv. þm. Mýr. (J. E.) kunni skýra grein á því, hvaða reglur henta bezt um laxveiði í Hvítá í Borgarfirði. En aftur á móti hygg eg, að bæði honum og mörgum öðrum hér í háttv. deild, sé alls ókunnugt um, hvaða aðferð sé heppilegust, að því er snertir Hvítá hér fyrir austan og Ölfusá. Það sem réð því, að eg léði meiri hluta nefndarinnar fylgi mitt í þessu máli, var það, að eg áleit viðkomandi sýslunefnd bærari að dæma um þetta efni, heldur en þingið. Hvað það snertir, að sýslunefndin geti gengið á rétt fjölda manna í sýslunni einstökum mönnum í hag, þá álít eg, að það geti ekki komið til nokkurra mála. Þessir einstöku menn, sem eg heyri hér álitið, að mestan hagnað muni hljóta af þessarri breytingu, eiga heima í einum tveimur hreppum sýslunnar. Ef allir hinir hrepparnir, og þótt ekki væri nema hrepparnir með Ölfusá og Hvítá að ofanverðu, teldi sér óhag í að heimila einhverja undanþágu eða breytingu á ákvæðum lagfriðunarlaganna, þá má geta nærri, að slík undanþága yrði aldrei veitt af sýslunefndinni. Það er mér með öllu óskiljanlegt, að allir þeir hreppar fórni sér eða sínum hagamunum fyrir eina tvo hreppa eða hagsmuni þeirra, Ölfus- og Sandvíkurhreppa. Eg sé því ekkert á móti því, að veita sýslunefnd Árnessýslu þessa umbeðnu heimild. Eg er viss um, að hún breytir aldrei ákvæðunum um friðum laxins, ef þeim sem ofarlega búa við árnar, getur orðið nokkurt tjón að breytingunni, því að þeir sem ofarlega búa eru margfalt fleiri en hinir, sem við ósana búa eða nálægt þeim. Þó að afleiðingin af þessu verði sú, að öðrum sýslunefndum verði veitt þessi sama heimild, þá, finst mér það ekkert athugavert. Það getur aldrei orðið að neinu tjóni, nema ef svo skyldi vera, að meiri hluti sýslunefndarinnar væri »interessaður« í einhverri breytingu í þessu efni, sem varla mun koma til. — Eg sé sem sagt ekkert verulegt á móti því að samþykkja þetta frumv. og eg skil ekki, að háttv. deildarmenn greiði atkvæði á móti því, þegar þeir eftir áskorun háttv. þm. Mýr. (J. E.) hafa hugsað sig vel um.