03.08.1914
Neðri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

87. mál, friðun á laxi

Jóhann Eyjólfsson:

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði, að sýslunefnd Árnessýslu væri ekki fengið neitt nýtt vald í hendur, þó að henni væri veitt þessi heimild, sem hér er farið fram á. Eg get ekki séð annað, en að svo sé, þar sem hún heldur áfram þeim rétti sem hún hefir haft, að stunda laxveiðina í 3 mánuði, og fær í viðbót rétt til að breyta eða nema burtu ákvæðin um 36 klukkustunda friðunina á viku. Þetta er alveg sérstakt vald, sem sýslunefndinni er fengið í hendur, og það getur hún ekki með öðru móti fengið en með landslögum. Eins og eg tók fram áðan, óttast eg að fleiri sýslur komi á eftir, ef þetta nær fram að ganga, og heimta þetta sama vald. Og þá veit eg ekki, hvernig þingið getur tekið í taumana, ef það vill vera sjálfu sér samkvæmt. Eg veit vitanlega ekki nákvæmlega, hvað við á í Árnessýslu í þessu efni, né við hverra óskum er orðið eða hverra vilji er brotinn á bak aftur með því að samþykkja þetta. Eg legg heldur ekki aðaláherzluna á þetta eina tilfelli. Það, sem eg legg áherzlu á, er það, að þetta verði ekki innleitt, því að eg óttast, að það geti dregið illan dilk á eftir sér. Eg ímynda mér, að þeir menn, sem óska eftir þessarri heimild hugsi aðeins um stundarhaginn, en íhugi á hinn bóginn ekki, hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir veiðiskapinn í heild sinni í framtíðinni. Ef þetta spor verður stigið er eg hræddur um, að mörg gönusporin fylgi á eftir. Mér er það þess vegna talsvert áhugamál, að sýslunefnd Árnessýslu verði ekki fengið þetta vald í hendur og vil leggja eindregið til að frumv. verði felt.