08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Jón Jónsson:

Eg stend upp til að láta í ljós undrun mína yfir því, að hvaða niðurstöðu nefndin hefir komist. Þegar eg lít á nöfnin, sem undir nefndarálitinu standa, þá sé eg, að tveir af þremur mönnum vóru með í að fella fjáraukalögin, og aðrir tveir vóru í fjár laganefndinni, báðir sparnaðarmenn, og þyki mér því næsta merkilegt, að þeir koma nú fram sem mjög örir á fé landsins.

Eg efa ekki, að háttv. flutningsmaður fyrra frv. hafi flutt það í beztu meiningu, því að hann er mjög hlyntur sjávarútveginum, en þetta frv. þyki mér ganga lengra en rétt er. Það situr illa á honum að koma nú fram með þetta frv., þar sem hann sagði um daginn, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði felt fjáraukalögin, af því að hann hefði ekki treyst sér til að hafa hemil á sjálfum sér. — Það lítur út fyrir að nefndin hafi gert það af ásettu ráði að búa til þetta nýja frv., þar sem stjórnin er skylduð til að kaupa jörðina, og landið á að bera allan kostnaðinn af byggingu hafnarinnar. Í hinu frv. var ekki farið fram á nema að styrkja höfnina að parti. En ef landið kaupir jörðina, verður það auðvitað að bera allan kostnaðinn. Það hefir verið bent á, að þetta sé alt gert út í bláinn, og það er fyrirsjáanlegt; að jörðin og höfnin verða miklu dýrari heldur en gert hefir verið ráð fyrir.

Eftir því sem haft er eftir landsverkfræðingnum, mun höfnin kosta meira en 75 þús. kr., og finst mér það vera næsta barnalegt af nefndarmönnunum, að ætlast til, að þeir menn., sem vóru með í að fella fjáraukalögin,verði fúsir til að ganga inn á svona frv. En sérstaklega vil eg láta í ljós undrun mína yfir því, að þeir tveir menn í nefndinni, sem vóru með í að fella fjáraukalögin, skuli gerast svo djarfir að koma fram með þetta frv. Það getur verið, að nauðsynin sé mikil, en það má líka gera of mikið úr öllu. Vér vitum, að fyrir þessu þingi lágu beiðnir um fjárveitingar til ýmislegra framkvæmda, gagnlegra og nauðsynlegra, og mér finst, að þetta geti alveg eins beðið næsta þings.

Eg verð að telja það sjálfsagt, að fella þetta mál þegar við þessa umr., því að eg fæ ekki betur séð, en að það sé hreinasta fjarstæða að samþ. það í þessari mynd.