08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

115. mál, kaup á Þorlákshöfn

Guðm. Hannesson:

Háttv. framsögum undraðist, að eg hefði fengið aðrar upplýsingar hjá verkfræðingi landsins heldur en hann. Eg gæti ímyndað mér að það sprytti af því, að eg hefi skoðað uppdrátt af hafnarsvæðinu, en það hefir hann líklega ekki gert.

Á uppdrættinum er fjöruborð sýnt með glöggri línu og állinn milli skers og lands er aðeins fáar álnir við stórstraumsfjöru, svo að heita má, að garðurinn sé allur á þurru landi. Hér er því í raun og veru ekki að tala um eiginlega höfn, og þessi blettur, sem á að sprengja, er takmarkað svæði, þar sem meiri og minni sjór gengur yfir eftir sjáfarföllum.

Þetta blasir við hverjum manni, sem lítur á uppdráttinn, og auðvitanlega skýrði verkfr. þetta líka á annan hátt, sem uppdrátturinn ber með sér.

Eg held að allir, sem heyrðu mína stuttu ræðu, hljóti að hafa skilið, að eg er þessu fyrirtæki velviljaður. Eg er þó ekki vanur að taka vel í fjárveitingar út í loftið. Lýsingin á ástandinu þar austur er nokkur ástæða til að sinna málinu. Að eg sé því illviljaður, kemur ekki til tals. Eg skal játa, að eg er ókunnugur á þessum stöðvum, en hitt er þó lakara, þegar menn reka sig á að kunnugir menn gefa rangar upplýsingar hér í deildinni. Menn geta séð það af nefndarálitinu, að landsnytjar eru engar, svo að það stendur óhrakið, sem uppdrátturinn sýnir, að grænn blettur sést þar enginn annar en túnið, og það er klukkutímaferð þangað sem gras tekur við. Þetta skiftir þó nokkru máli, þegar talað er um að gera höfn og hlynna að atvinnu fólks: Það er viðurkent af háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að hér sé ekki hugsað til að gera fast aðsetur fyrir útveg, heldur aðeins þann tíma, sem róið er á vertíðunum. Ef hér væri um að ræða eitthvað, sem vöxtur og gróði væri í, þá væri sjálfsagt að veita til þess fé. En umræðurnar hafa sýnt, að mínar upplýsingar eru réttari heldur en upplýsingar háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Það sannar lítið, þó að búið hafi verið þar stórbúi, því að fjörubeit er þarna góð, og það má líklega láta margt fé ganga í hrauninu, en slægjur eru engar. Þessir landkostir geta verið nýtandi fyrir eitt bóndabýli, en fyrir bæ og margmenni eru þeir léttir á metunum. Eða mætti eg spyrja háttv. 1. þm. Árn. (S. S.): Fylgja jörðinni nokkrar slægjur á bak við hraunið? (Sigurður Sigurðsson: Nei). Af því, sem eg hefi fræðst um þetta mál af umræðunum, leyfi eg mér að bera fram rökstudda dagskrá þannig hljóðandi:

»Sökum þess, að þingdeildin telur mál þetta ekki nægilega undirbúið, en treystir því, að stjórnin afli fyrir næsta þing nauðsynlegra upplýsinga, og leggi málið, ef tiltækilegt þykir, fyrir þing 1915, tekur hún fyrir næsta mál á dagskrá.«